153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér í ræðu áðan reyndi ég að skýra út dæmi um það hvernig barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri brotinn í þessu frumvarpi. Ég var þá ekki með frumvarpið sjálft fyrir framan mig. En mig langar að lesa c-lið 8. gr. frumvarpsins. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram …“

Ég ætla að taka smá pásu hérna. Nú kemur mikilvægi hlutinn og hlustið vel. Með leyfi forseta:

„… enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.“

Aftur, stoppa. Einhver sem „kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd“. Þarna er sem sagt verið að stoppa það af að ef það er talið að einhver hafi borið ábyrgð á töf af þessum sem eru taldir upp þá gildir þessi tólf mánaða regla ekki.

Svo langar mig að lesa fyrir ykkur 2. mgr. 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

Hér stendur að ekki megi refsa vegna athafna foreldra, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima. Í því sem við vorum að lesa stendur „umsækjandi sjálfur, maki, sambúðarmaki eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd“. Ef umsækjandinn er barn og foreldri viðkomandi kemur fram fyrir hönd barnsins er hægt að refsa barninu með þessari grein ef 2. mgr. 2. gr. barnasáttmálans nyti ekki við. Þarna er hreint og klárt verið að ganga þvert á það sem stendur um að megi ekki refsa barninu fyrir það sem foreldrarnir gera á meðan að nákvæmlega þessi setning í lögunum, í c-lið 8. gr. laganna, segir að það megi refsa ef einhver fjölskyldumeðlimur hafi gert þetta.

Þarna er eitt gott dæmi um það sem við viljum að sé tekið upp áður en þetta mál er tekið til atkvæðagreiðslu í 2. umr. því að þarna eru hrein og klár brot á þessu. Ef þessi grein væri aðeins öðruvísi og segði t.d.: Þetta á ekki við ef umsækjandi er barn, þá væri það kannski ekki þessi grein sem við værum að rífast um. En þarna er það þannig að umsækjandinn getur verið barn og þá þurfum við að fylgja þeim lögum um börn sem barnasáttmálinn, sem hefur verið lögfestur á Íslandi, segir til um. Þar af leiðandi þarf að vinna þessa grein betur því ef hv. þingmenn samþykkja þessa grein óbreytta í atkvæðagreiðslu hér við 2. umr. (Forseti hringir.) þá eru þeir að brjóta lög og alþjóðasáttmála.

Frú forseti. Geturðu vinsamlegast bætt mér á mælendaskrá?