Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:02]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að halda áfram þar sem ég lét staðar numið síðast. Ég var að tala um íþyngjandi ákvarðanir og meðalhófsregluna. Ég var að setja það í samhengi við frumvarpið sem við ræðum hér. Ég taldi upp alla þrjá meginþætti reglunnar um meðalhóf og ég var við það að fara að taka dæmi um hæstaréttardóm, sem hjálpar mér alltaf rosalega mikið að skýra hlutina vel, setja þá í samhengi eða bara yfir á mannamál. Ef maður horfir á eitthvert tilfelli út frá atvikum sem hafa gerst í alvörunni er kannski auðveldara að skilja hlutina.

Sá hæstaréttardómur sem ég er að reifa varðar framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Í þeim dómi reyndi á hvort félagsmálaráðherra hefði gætt grundvallarreglu stjórnsýsluréttar við aðkomu sína að starfslokum einstaklings. Umræddur einstaklingur hafði sem formaður Leikfélags Akureyrar staðið að ráðningu leikhússtjóra sem var talin andstæð jafnréttislögum og til að skapa frið um Jafnréttisstofu hætti einstaklingurinn störfum eftir fund með félagsmálaráðherra. Niðurstaða Hæstaréttar, hvað varðar ráðningu leikhússtjórans, var sú að hún hafi ekki verið andstæð jafnréttislögum og hefði einstaklingurinn því ekki þurft að segja upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Félagsmálaráðherra hefði því ekki gætt meðalhófs þegar hann bað þennan einstakling um að segja upp störfum sínum. Mér finnst þetta bara rosalega klippt og skorið, hvenær um er að ræða brot á meðalhófsreglu.

Réttaráhrif þess að brjóta meðalhófsreglu geta leitt til þess að ákvörðunin teljist ógild. Á það reyndi í hæstaréttardómi frá 1999 varðandi umgengnisrétt. Þar var umgengni móður við barn sitt takmörkuð óhóflega án nægjanlegs rökstuðnings. Við þessa takmörkun var meðalhófsreglunnar ekki gætt og því voru þessar takmarkanir gerðar ógildar. En síðan geta réttaráhrif brota á meðalhófsreglunni líka leitt til skaðabóta. Á það reyndi í hæstaréttardómi frá árinu 1994 varðandi innsiglaða starfsstöð. Þar var fyrirtæki talið eiga rétt á bótum eftir að rekstur þess var fyrirvaralaust stöðvaður án þess að því hafi áður verið tilkynnt um hina fyrirhuguðu aðgerð. Þeim var ekki veittur kostur á því að greiða skuldina og því um að ræða brot á reglunni um meðalhóf. Þetta er bara rosalega klippt og skorið. Ef fyrirtækinu hefði verið gefinn kostur á því að greiða þessa skuld hefði reglan um meðalhóf ekki verið brotin. Meðalhófsreglan er bæði skráð og óskráð. Óskráða reglan um meðalhóf hefur víðtækara gildissvið en hin skráða. Til að mynda tekur óskráða reglan um meðalhóf til allra stjórnvaldsathafna en hin skráða regla tekur bara til stjórnvaldsákvarðana. Bara svona til að taka dæmi þá reyndi á þetta í áliti umboðsmanns Alþingis varðandi síma, en þar reyndi á hvort hægt væri að loka síma einstaklings strax þar sem hann hafði ekki greitt símreikninginn sinn. Umboðsmaður Alþingis taldi að beita hefði þurft svokallaðri áskorun áður til þess að fá einstaklinginn til að greiða reikninginn áður en tekin yrði ákvörðun um að loka síma hans. Þessu er ég bara hjartanlega sammála.

Ég held að þingmenn séu með aðgang að Lögbirtingablaðinu og þegar maður opnar það getur maður ýtt á áskoranir og þar er svona flipi þar sem kemur bara fullt af áskorunum sem verið er að senda út til borgara. Það er gaman að segja frá því að þetta er liður í því að gæta meðalhófs. Alltaf þegar ég sé einhvers konar áskorun á síðu Lögbirtingablaðsins tek ég því fagnandi af því að þá veit ég að stjórnvöld eru að gæta meðalhófs og eru ekki að beita íþyngjandi ákvörðunum strax. En ég sé að ég er að renna út á tíma, virðulegur forseti, og óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.