Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:31]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að fjalla um réttaráhrif við brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Það liggur alveg skýrt fyrir hver réttaráhrifin eru, þau myndu auðvitað leiða til ógildingar eða skaðabóta, geta bakað bótaábyrgð. En niðurstaðan getur náttúrlega líka bara verið endurupptaka. Ég þarf ekkert að fara nánar út í þá sálma.

Virðulegi forseti. Ég tel vera fullt tilefni til að fara nánar út í valdmörk stjórnvalda og valdframsal stjórnvalda en ég geymi það kannski í smástund út af því að mig langar að tala aðeins um þetta frumvarp á almennum nótum. Hér er ég búin að koma upp margoft. Ég veit hvernig þetta lítur út, virðulegi forseti, ég geri mér fyllilega grein fyrir því hvernig þetta lítur út, en við erum raunverulega, í alvörunni að lýsa yfir áhyggjum. Við erum að benda á atriði í þessu frumvarpi sem gætu farið gegn settum lögum og settum meginreglum eins og t.d. jafnræðisreglunni, sem ég var að reifa hér og fór ítarlega í, en ég get farið enn ítarlegar í þá reglu.

En bara svona sem dæmi: Skýrasta dæmið um brot á jafnræðisreglunni er auðvitað bara 6. gr. frumvarpsins þegar kemur að því að svipta umsækjendur um alþjóðlegri vernd grunnþjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt núverandi lögum. Þess vegna velti ég fyrir mér: Hver er hugsunin á bak við það að setja þessa 6. gr. inn í þetta frumvarp ef ekki bara til þess að hrekja þetta fólk í burtu? Við erum með frumvarp. Við erum með lög sem við erum að nota, sem voru samþykkt í sátt þvert á flokka árið 2016, en svo er búið að leggja þetta frumvarp fram síðan 2017, 2018, ég veit það ekki, ég var ekki á þingi þá. En ég veit að það er búið að leggja það fram fimm sinnum (Gripið fram í: 2019.) — síðan 2019. Það er búið að leggja þetta frumvarp fram fimm sinnum síðan þá, virðulegi forseti. Alltaf er verið að gagnrýna þessa 6. gr. af því að hún er ekki bara brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar heldur er hún líka brot, mögulegt brot, á mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskránni, eins og kemur réttilega fram í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og ber hæstv. dómsmálaráðherra og þingmönnum öllum að taka mið af þeirri umsögn — af því að, virðulegur forseti, eitt sem ég hef áttað mig á síðan ég tók fyrst sæti á þingi er að þingmenn vita ekkert allt. Við erum ekkert sérfróð í öllum málefnum og þess vegna fáum við umsagnir frá umsagnaraðilum og það þýðir ekkert að við hlustum bara á það þegar okkur hentar, þegar það hentar okkar málstað, heldur þarf að taka til greina athugasemdir, ábendingar og áhyggjur sérfróðra aðila. Annars væri konseptið — ekki konseptið. Hvað er aftur íslenska orðið yfir konsept? Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að sletta, afsakið. — Annars væri konseptið af umsögnum bara einfaldlega ekki til. Þetta er gert til þess að leiðbeina fólki. Ég man að ég flutti eina ræðu síðasta vor um að sérfræðiþekking væri frekar innan ráðuneyta en innan Alþingis. En miðað við það að þetta ömurlega frumvarp, þetta draslfrumvarp, ætla ég að leyfa mér að segja, hefur verið unnið og lagt fram fimm sinnum án þess að taka til greina áhyggjur og umsagnir sem varða þetta tiltekna ákvæði — nú er ég bara að tala um 6. gr., ég á eftir að fara efnislega út í allar hinar greinarnar sem valda mér áhyggjum. En það er búið að gera athugasemdir við þessa 6. gr. svo oft og hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki dottið í hug að taka bara þessar áhyggjur til greina og taka þetta blessaða ákvæði út sem skerðir réttindi fólks. Og fólkinu sem vinnur í dómsmálaráðuneytinu hefur heldur ekki dottið í hug að segja: Hey, þetta brýtur gegn réttindum fólks og það er búið að benda á það margoft af umsagnaraðilum. Kannski ættum við að taka þetta út.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu og óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.