Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég var að fara yfir skýrslu Rauða krossins um aðstæður einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Ég var komin á bls. 2 í þessari skýrslu þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Vegna skorts á úrræðum fyrir framangreinda einstaklinga hafa þeir setið fastir hér á landi svo árum skiptir í lagalegri óvissu og án réttinda en slíkt getur haft óafturkræfar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu þeirra og velferð.“

Og við ætlum að fjölga í þeirra hópi með samþykkt þessa frumvarps.

„Vakin er athygli á því að þegar einstaklingar sækja um alþjóðlega vernd hér á landi þykir nægja að leggja fram afrit af vegabréfi. Er því ekki gerð sérstök krafa um að frumrit af slíkum skilríkjum séu lögð fram líkt og gert er í tilviki umsækjenda sem fengið hafa lokasynjun og sækja um bráðabirgðadvalarleyfi. Telur Rauði krossinn því rétt að Útlendingastofnun samræmi framkvæmd sína þegar kemur að verndar- og dvalarleyfisumsóknum og gera fólki þannig kleift að sækja um bráðabirgðadvalarleyfi með því að leggja fram afrit af vegabréfi í stað frumrits.“

Þannig að það er nóg fyrir flóttafólk sem kemur hingað til lands og fær efnismeðferð að leggja fram afrit en það er ekki nóg fyrir þau sem fá ekki efnismeðferð að leggja fram afrit, þau þurfa frumrit. Það er ómögulegt fyrir þau að fá frumrit og þess vegna eru þau föst í þessu lagalega limbói hérna. Þetta eru auðvitað skýr merki um að það sé ásetningur á bak við þetta, virðulegi forseti.

Ég er komin að öðrum kafla í þessari mikilvægu skýrslu um þetta mál, virðulegi forseti, en þar kemur fram að framfærsla sé ófullnægjandi.

„Samkvæmt 23. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd þjónustu þar til 14 dögum eftir birtingu ákvörðunar um veitingu verndar, þremur dögum eftir að umsókn er dregin til baka eða til þess dags þegar ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið kemur til framkvæmdar. Af því leiðir að þeir umsækjendur sem hafa fengið lokasynjun í máli sínu en dvelja enn á landinu eiga rétt á sömu þjónustu og aðrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. reglugerðar um útlendinga eru fæðispeningar einstaklinga í húsnæði án fæðis og einstaklinga í eigin húsnæði einungis 8.000 kr. á viku. Hjón eða sambúðarfólk fær 13.000 kr. á viku samanlagt og bætast 5.000 kr. við þá fjárhæð fyrir hvert barn innan fjölskyldunnar. Fjárhæðin skal þó aldrei vera hærri en sem nemur 28.000 kr. fyrir hverja fjölskyldu á viku. Samkvæmt 29. gr. reglugerðarinnar á umsækjandi um alþjóðlega vernd jafnframt rétt á vikulegu framfærslufé eftir fjögurra vikna dvöl á vegum Útlendingastofnunar. Á þá fullorðinn einstaklingur rétt á 2.700 kr. í framfærslufé á viku og barn 1.000 kr. Engar breytingar hafa verið gerðar á framangreindum fjárhæðum frá setningu reglugerðarinnar árið 2017 en samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands hefur verðlag frá því í ársbyrjun 2017 hækkað um 28,1%. Samkvæmt línuriti sem finna má á heimasíðu Hagstofu Íslands mælist ársverðbólga nú 9,4% en í janúar 2017 mældist hún einungis 1,9%.

Rauða krossinum hefur í gegnum tíðina borist ítrekaðar kvartanir þess efnis að umsækjendur hafi þurft að velja á milli þess að kaupa sér mat eða nauðsynleg lyf, auk þess sem umsækjendur hafa kvartað sáran undan því að eiga ekki fyrir næringarríkum mat fyrir sig og börnin sín. Upphæðin dugi einfaldlega ekki fyrir framfærslu, hvorki einstaklinga né fjölskyldna.“

Ég get nú alveg tekið undir það.

„Samkvæmt viðmiðum um fjárhagsaðstoð (sjá fylgiskjal nr. 2), sbr. 3. gr. reglna nr. 520/2021 um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur úr ríkissjóði, er einstaklingi sem greiðir sjálfur fyrir fullt fæði en þarf ekki að greiða fyrir húsnæði veitt að hámarki 62.722 kr. fjárhagsaðstoð á mánuði. Þegar aðstoð nær til fleiri einstaklinga úr sömu fjölskyldu skal miða við það að tveggja manna fjölskylda, hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða, fái 160% af grunnfjárhæð (þ.e. 100.355 kr.), þriggja manna fjölskylda 180% (þ.e. 112.900 kr.), fjögurra manna fjölskylda 200% (þ.e. 125.444 kr.) o.s.frv. og nemur hækkun vegna hvers einstaklings 20%. Á þessi fjárhagsaðstoð við í eftirfarandi tilvikum, sbr. 4.–7. tölul. 3. gr. reglna nr. 520/2021:

4. tölul.: Þegar beðið er eftir að ákvörðun stjórnvalda um að einstaklingur yfirgefi landið komi til framkvæmda. Getur einnig átt við í ákveðnum tilvikum þrátt fyrir að ákvörðun stjórnvalda um að einstaklingur eigi að yfirgefa landið liggi ekki fyrir, til dæmis þegar fangi hefur fengið reynslulausn.“

Ég sé að ég hef klárað tíma minn hér en ég er enn að fjalla um þessa framfærslu sem á að taka af flóttafólki og óska því eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.