Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Í undanförnum ræðum hef ég verið að tala um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það hvernig þetta frumvarp brýtur í bága við þann sáttmála. Eftir að hafa bent virðulegum forseta á þetta ítrekað, og það hefur einnig verið bent ítrekað á að þetta frumvarp standist heldur ekki mannréttindahluta stjórnarskrárinnar, þá er ansi sorglegt að hv. þingmenn og virðulegi forseti skuli ekki taka þetta mál aftur inn í nefnd til að laga þessa annmarka. Mér er spurn, eins og ég hef lýst yfir áður, hvers konar ábyrgðarhluti það er að gera slíka hluti vísvitandi.

Barnasáttmálinn er bara einn af mörgum sáttmálum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur fullgilt. Annar samningur sem tengist þessu frumvarpi er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sá samningur er nokkuð nýrri en barnasáttmálinn og mannréttindayfirlýsingin sem ég hef farið í hingað til en hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006. Þann 30. mars 2007 undirritaði Ísland þennan samning og þann 23. september 2016 fullgilti hið háa Alþingi þennan samning.

Ég ætla mér, líkt og með hina samningana, að fara í gegnum þær greinar sem tengjast þessu frumvarpi. Ég ætla ekki að fara í gegnum allt sem kemur fram í þessum samningi enda er hann upp á einhverjar 50 greinar og sumar hverjar hafa litla merkingu þegar kemur að þessu frumvarpi. En mér finnst mikilvægt að fara í gegnum þær greinar sem ég hef ákveðið að fara í gegnum, sér í lagi að gefnu tilefni af því að við, ekki bara hv. þingmenn heldur þjóðin öll, þurftum að horfa upp á það í desember síðastliðnum þegar fatlaður einstaklingur og fjölskylda hans var flutt úr landi með valdi. Sér í lagi þykir mér mikilvægt að fara í gegnum það sem hér stendur því að það eina sem lögreglan og dómsmálaráðuneytið virðist ætla að læra, ef við getum kallað það það, af þeirri skelfilegu meðferð og sönnu broti á bæði þessum sáttmála og öðrum, er að já, það þarf að finna bíl sem getur flutt hjólastóla fyrir lögregluna. Þetta er þvílíkt — ég veit ekki hvað á að segja. Þetta bara sýnir hvað ráðuneyti dómsmála í dag undir stjórn ráðherrans Jóns Gunnarssonar er algerlega stjórnlaust og hreinlega getur ekki sinnt sínu lögbundna hlutverki. Það er kannski mikið áhyggjuatriði að það er einmitt það ráðuneyti sem nú fer yfir lög til að athuga með hluti eins og hvort þeir standist stjórnarskrá.

En, virðulegi forseti, inngangurinn var dálítið lengri en ég hafði ætlað mér, kannski af því að ég var reiður yfir ákveðnum hlutum, þannig að ég óska eftir að komast aftur á mælendaskrá til að fara yfir sjálfan samninginn.