Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fara í gegnum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hefur það passað mjög vel við það að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur verið að fara í gegnum umsögn Þroskahjálpar. Ég var síðast að fjalla um 14. gr. þessa samnings sem fjallar um frelsi og öryggi einstaklingsins. En 15. gr. er í tveimur málsgreinum og fjallar um frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Enginn skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræði- eða vísindatilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar.“

Já, þetta hvort tveggja hefur komið upp, annars vegar ómannleg meðferð, eins og við sáum með fatlaðan mann sem var fluttur úr landi í desember, Hussein. Í öðru lagi hafa ítrekað komið fram, í umsögnum um þetta frumvarp, ábendingar um að ekki sé hægt að neyða fólk í læknisfræðitilraunir eins og hér segir.

2. mgr. 15 gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að vernda fatlað fólk, til jafns við aðra, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.“

Virðulegi forseti. Hér er verið að setja á okkur sem löggjafa þá ábyrgð að búa til löggjöf og gera aðrar ráðstafanir, þar sem við verndum fatlað fólk frá ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð. Mér þykir það ansi leitt að í stað þess að nýta tækifærið, eftir að við sáum þá niðurlægjandi og ómannlegu meðferð sem Hussein fékk hér í desember, hafi hvorki ráðuneyti né hv. allsherjar- og menntamálanefnd nýtt tækifærið til þess að skerpa á þessari vernd. Það er náttúrlega enn verra og sorglegra að sjá að það er enginn áhugi hjá ráðherra, ráðuneyti eða ríkislögreglustjóra á að bæta meðferð fatlaðs fólks annað en það að leita að bíl sem getur tekið hjólastól.

Virðulegi forseti. Það er bara alls ekki nóg og við eigum hreinlega að skammast okkar fyrir að þetta hafi gerst. Ríkislögreglustjóri ætti að biðjast afsökunar opinberlega og læra af þessum mistökum. Tíminn er enn og aftur á þrotum. Við þurfum einhvern tímann að taka góða umræðu um ræðutímalengd vegna þess að við erum alltaf að klára ræðutíma í öllum mismunandi þáttum starfsins hér á þinginu. Ég óska eftir því að mér verði bætt aftur á mælendaskrá.