Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:24]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég er búin að fjalla svolítið ítarlega um einn kafla í þessari bók en ég vona að þú skiljir hvað ég meina. Nú ætla ég að fara lauslega yfir alla þá kafla sem ég ætla mér að tala um í tengslum við þetta frumvarp. Það eru kaflarnir: Má víkja frá ákvæðum stjórnsýslulaga með almennum stjórnvaldsfyrirmælum?, Mannréttindasáttmáli Evrópu, Vandaðir stjórnsýsluhættir, Málsmeðferð sem fer fram í nánum tengslum við ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga, Vandaðir stjórnsýsluhættir sem fyrirbyggja misskilning og tryggja sönnun um hvernig málsatvik hafa verið metin, Reglur sem á reynir við töku stjórnvaldsákvörðunar, Almennt um gildissvið stjórnsýslulaga, Hugtakið „stjórnvald“ í skilningi stjórnsýslulaga, Stjórnsýsla ríkis eða sveitarfélaga?, Stjórnvaldsákvarðanir, og þar undir Skilgreining hugtaksins stjórnvaldsákvörðun, Ákvörðun tekin í skjóli stjórnsýsluvalds, Hefur bindandi réttaráhrif um úrlausn tiltekins máls, Er beint út á við að borgurunum, Bindur enda á stjórnsýslumál, Beinist að tilteknum aðila eða aðilum og Ákvörðun um rétt eða skyldur manns.

Tökum við eftir ákveðnu þema hérna? Já, þetta er allt eitthvað sem varðar t.d. umsækjendur um alþjóðlega vernd. Öll þessi atriði eru hluti af ferlinu þegar kemur að því að taka ákvörðun um endanlega niðurstöðu máls. Síðan er það kaflinn um aðila stjórnsýslumáls og þá sérstaklega hagsmunirnir, beinir og sérstakir lögvarðir. Svo eru það Valdmörk stjórnvalda. Ég er ekki einu sinni búin að snerta á þeim kafla. Þá langar mig að tala um birtingu fyrirmæla um valdframsal og svo langar mig að tala um upphaf stjórnsýslumáls og síðan leiðbeiningarskyldu stjórnvalds og málshraðaregluna. Síðan er náttúrlega farið rosalega ítarlega út í rannsóknarregluna og andmælaregluna og allt það, en ég er náttúrlega búin að fara út í það. En mikilvægast þykir mér Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ég er að taka meðvitaða ákvörðun um að taka frekar ítarlega umfjöllun um þennan kafla út af því að það er ákvæði í lögunum sem við erum að ræða hér í dag, útlendingalögunum, sem heimilar lögreglunni eða öðrum bærum stjórnvöldum, ég man ekki hvernig það er orðað, til að afla viðkvæmra persónuupplýsinga á borð við sjúkraskrá. Ef þetta stjórnvald, þessir stjórnvaldsaðilar, mögulega lögreglan, telur að það sé þörf á því að afla þessara upplýsinga án þess að viðkomandi aðili máls fái að vita af því að lögreglan sé að skoða sjúkraskrána og þar af leiðandi persónuupplýsingar — mig langar ekki að fara of hörðum orðum um þetta hérna uppi í pontu Alþingis en þetta hlýtur að teljast einhvers konar misbeiting valds því að þetta er bara alls ekki í lagi.

Mér þykir mjög mikilvægt að taka ítarlega efnislega umfjöllun um þetta með tilliti til stjórnsýslulaga og almennra reglna þegar kemur að beitingu þessara málsmeðferðarreglna og stjórnsýslulaga í heild og síðan að meta í heild sinni hvort það sé samræmanlegt, þ.e. hvernig núgildandi málsmeðferðarreglum er beitt, og leggja mat á það hvort hægt verði að tryggja að þessum lögum, sem hæstv. dómsmálaráðherra vill koma í gegn, verði beitt á sambærilegan og tryggan hátt. — En ég sé að ég er runnin út á tíma og óska því eftir því að fara aftur á mælendaskrá.