Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:43]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hingað hafa komið upp á undan mér. Þannig er mál með vexti að ég fór í óundirbúnar fyrirspurnir við hæstv. mennta- og barnamálaráðherra í morgun í tengslum við útlendingafrumvarpið. Eins góð og fyrirspurnin var og eins góð og andsvörin voru sem ég fékk þá svaraði hann einfaldlega ekki spurningu minni. Ég hef séð það síðan áður en ég tók sæti á þingi á miðvikudaginn að þá hafa hv. þingmenn þingflokks Pírata kallað eftir aðkomu og viðveru hæstv. mennta- og barnamálaráðherra en hann hefur ekki orðið við þeirri beiðni eða því ákalli. Það liggur skýrt fyrir að þetta snertir málefnasvið hans líka og þetta snertir hans ráðuneyti líka og væri ég bara til í að vita hvort hann hyggist taka þátt í þessum umræðum.