131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:12]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Við búum við ákaflega sérkennilegar aðstæður sem stendur. Nýr forsætisráðherra er að taka við völdum og það ríkir verkfall í grunnskólanum. Hæstv. forsætisráðherra hefur komið hingað og sagt: Það verkfall kemur mér ekki við. Hann og hans ríkisstjórn ætlar ekki með nokkrum hætti að reyna að liðka til fyrir lausn þess máls.

Sami hæstv. forsætisráðherra leggur síðan fram fjárlagafrumvarp þar sem efnahagsstefna hans birtist. Efnahagsstefnan er svo harkaleg að hún stefnir stöðugleikanum í voða. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir að þar sé skattalækkunarstefna sem verki beinlínis eins og olíu sé hellt á eld. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að hann ætli í raun ekki að gera nokkurn skapaðan hlut nema að boða til fundar.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn til að breyta skattastefnunni í frumvarpinu. Er það til dæmis rétt að Framsóknarflokkurinn komi í veg fyrir að hægt sé að lækka matarskattinn? Það er það sem verkalýðshreyfingin vill.