131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:15]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ráðgjöfina, hún er ágætlega þegin. Ég hef aldrei sagt að mér komi hlutirnir ekki við og auðvitað hlusta ég á það sem sagt er, en ég minni hv. þm. á eitt: Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp var skattprósentan rétt liðlega 35% og ég man vel að allir flokkar á Alþingi voru sammála um að skattprósentan mætti ekki verða hærri. Nú stendur til að lækka hana niður og að hún verði svipuð og hún var upphaflega. Þá rís stjórnarandstaðan á Alþingi öndverð gegn því. Ég held að hv. þm. ætti að rifja upp hvernig Alþýðuflokkurinn talaði þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp. Ég held að það væri honum hollt að lesa sig til um það áður en hann kemur með slíka sleggjudóma.

Ég vil líka minna hv. þm. á það að eftir því sem skattprósentan er lægri þeim mun ólíklegri eru skattsvik. Það skiptir máli og það skiptir líka máli að minnka bilið í tekjuskattinum milli einstaklinganna og fyrirtækjanna og sú stefna sem ríkisstjórnin hefur tekið upp er einmitt leið til þess.