131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál, sá endurtekni ófriður sem uppi hefur verið og uppi er um málefni Hæstaréttar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórninni hefur með öllu mistekist að tryggja Hæstarétti þann starfsfrið og viðhalda eða skapa og efla það traust á réttinum sem er einn af hornsteinum réttarríkis okkar. Það hefur m.a. gerst með fáheyrðum bréfaskriftum forseta Alþingis hér þar sem hann blandaði Hæstarétti inn í umfjöllun um mál á Alþingi. Það hefur gerst með því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur ítrekað hjólað í Hæstarétt af því að honum mislíka einstakar dómsniðurstöður réttarins. Verst hefur þó tekist til, endurtekið, þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, settir sem skipaðir, fara með vald sitt eins og raun ber vitni í sambandi við embættisveitingar hæstaréttardómara. Trúlega eru ítrekuð og að því er virðast vísvitandi brot á jafnréttislögum þó mesta hneykslið í þessu sambandi, en það liggur fyrir að bæði settur og skipaður dómsmálaráðherra, að því er virðist, telji sig óbundna af skýrum ákvæðum jafnréttislaga.

Fólk hefur það almennt ekki á tilfinningunni að um faglegar og hlutlægar ákvarðanir sé að ræða. Það er ömurlegt að heyra ráðherra Sjálfstæðisflokksins nota það sem málsvörn að þeir komi fram með prívatskoðanir sínar á því hvaða tegund af dómara sé heppilegust eftir að auglýsing hefur farið fram og eftir að Hæstiréttur hefur veitt sína umsögn. Af hverju var þá ekki látið liggja fyrir að það ætti að styrkja réttinn á sviði Evrópumála eða hvað varðar lögmannsreynslu?

Auðvitað gengur þetta ekki, þessi aðferðafræði er ónýt, a.m.k. á meðan veitingavaldið er í höndum manna eins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem fara með það sem raun ber vitni. Það verður að gera þarna breytingu á. Nærtækast er auðvitað að losna við svona ráðherra en til öryggis þarf aðferðafræðin að vera traustari þannig að um ókomin ár sé fyrirbyggt að menn geti farið svona með vald sitt.