131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[16:04]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða á að snúast um hvernig menn fara með vald sitt. Hún á að snúast um hvernig hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, ákvað að hunsa algjörlega álit Hæstaréttar. Hæstiréttur á að vera hafinn yfir alla tortryggni og vafa. Því hefur nú verið stefnt í hættu vegna ákvarðana Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt Hæstarétt harkalega fyrir að sinna sínu lögbundna hlutverki. Þeir hafa jafnvel talað um fámenna klíku í Hæstarétti sem vilji ákveða eftirmenn sína með óeðlilegum hætti. Sjálfstæðismenn virðast frekar vilja að þröng valdaelíta Sjálfstæðisflokksins ráðstafi þessu starfi. Hvor leiðin ætli sé líklegri til klíkumyndunar? Þegar gagnrýnin síðan hefst svara menn því með þjósti að þeir hafi veitingarvaldið og fólk eigi bara að halda sig á mottunni.

Öllu valdi fylgir ábyrgð. Hér er verið að sýsla með hagsmuni almennings. Þegar slíkir hagsmunir eru í húfi er ekki nóg að vísa bara í veitingarvald sitt, hunsa málefnaleg sjónarmið og skipa bridsfélagann í Hæstarétt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað gert skipan hæstaréttardómara að flokkspólitísku máli. Þeir hafa eyðilagt ferlið sem hefur verið í gangi undanfarna áratugi. Sáttin er farin, eins og hv. þm. Framsóknarflokksins benda hér á. Sjálfstæðisflokkurinn setti á fót leikrit sem öll þjóðin sér í gegnum þar sem forsendurnar voru klæðskerasaumaðar af þeirra mönnum eftir á. Það er eitthvað að þegar aðrir umsækjendur segja að ekkert þýði að leita réttar síns þar sem það hafi þeir gert áður án þess að nokkuð hafi breyst. Eða þegar fyrri umsækjendur segja að það þýði ekki einu sinni að sækja um embættið þar sem hvort eð er sé löngu búið að ákveða hver fái það.

Þegar maður hélt að þessi ríkisstjórn kæmist ekki lengra hvað varðar ítroðslu sinna manna í störf gerist þetta. Sjálfur Hæstiréttur er ekki einu sinni heilagur fyrir þessu fólki.