131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:42]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég skil þessa tillögu frá Vinstri grænum, að þeir vilji fresta og nota tímann til að byggja upp dreifikerfið, grunnkerfið, flutningskerfi fjarskipta á Íslandi, er kannski vert vegna síðustu orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar að árétta enn og aftur þau orðaskipti sem ég átti við annan hv. þm. fyrr í dag að við klárum það aldrei í eitt skipti fyrir öll að byggja upp dreifikerfi.

Að öðru leyti vil ég segja um afstöðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann og flokkur hans hefur ákveðna hugmyndafræðilega afstöðu til sölu ríkisfyrirtækja. Hv. þm. og flokkur hans var líka á móti sölu ríkisbankanna og hann talar gjarnan um að við eigum að halda mjólkurkúnni í ríkiseigu, það er ágætissamlíking hjá honum. En hv. þm. lítur líka ávallt fram hjá því eða kýs að gleyma því hvað til að mynda sala ríkisbankanna hefur fært íbúunum, þjóðinni, kjósendunum í hagnað svo ég nefni nýjustu dæmi um lækkun vaxta. Það hefur verið stefna stjórnarflokkanna og í rauninni allra flokka hér á þingi að selja Landssímann, að tryggja rekstrargrundvöll fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði á Íslandi. En aðallega gengur umræðan út á það hvort eigi að selja dreifikerfið líka. En eins og ég gat um fyrr í dag er sala dreifikerfisins ekki forsendan fyrir því að tryggja jafnan aðgang allra. Forsendan fyrir því að tryggja jafnan aðgang er ekki að halda dreifikerfinu í ríkiseigu. Og ég ítreka þá stefnu Framsóknarflokksins að vilja tryggja við söluna nægjanlegt fjármagn til að halda áfram tæknilegri uppbyggingu grunnkerfisins sem er forsendan fyrir samkeppninni á þessum markaði. Það er meginatriðið. Það er byggðasjónarmiðið og það er öryggissjónarmiðið, sem ég nefni á hlaupum vegna þess að hv. þm. líkti þessu við Ríkisútvarpið.