132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að koma með þetta mál til umræðu, það er full þörf á því.

Við í Frjálslynda flokknum höfum í fimm skipti með þessu hausti lagt fram sérstakt mál til að taka m.a. á ákveðnum vanda eldri borgara. Það snýr að tengingu almannatryggingakerfisins og lífeyriskerfisins eða tekjukerfisins ef menn eru enn þá á vinnumarkaði. Það er einfaldlega svo að kerfið gerir það að verkum að með 45% skerðingartengingu skerðist lífeyrir frá almannatryggingum beint í hlutfalli við inneign í lífeyrissjóðum. Ég tel að það kerfi sem við erum með sé mjög óréttlátt og þess vegna höfum við verið að flytja þetta mál á undanförnum fimm árum, að breyta tengingunni þannig að fyrstu 50 þús. kr. sem fólk fær út úr lífeyrissjóði skerði ekki bætur almannatrygginga. Ég held að þetta væri mjög virk og góð kjarabót. Það er mjög óeðlilegt að skerðingin skuli byrja á 45% og að í henni séu ekki nokkur einustu þrep. Það er engin aðlögun fyrir það fólk sem hefur minnstu réttindin úr lífeyrissjóði.

Það er sama þótt fólk eigi jafnvel engin réttindi og þurfi að vera á vinnumarkaði þá kemur skerðingin nákvæmlega eins nema hún er heldur verri því að þá hverfur ellilífeyririnn, grunnlífeyririnn, 22 þús. kr. Sama á við með fjármagnstekjur en þær eru þó skertar með helmingi, helmingurinn er dreginn frá áður en skerðing verður. Þetta kerfi er gjörsamlega óboðlegt fyrir eldri borgara. Það hlýtur að vera kominn tími til þess fyrir okkur á hv. Alþingi að skoða m.a. það mál sem við frjálslyndir höfum verið að leggja hér fram og vita hvernig má útfæra það þannig að ásættanlegt sé fyrir alla.