132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:17]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er leiðinlegt hve rangt menn geta farið með staðreyndir. Það hefur aldrei verið klippt á sambandið milli launa og bóta. Það er þveröfugt. Í lögum segir að bæturnar skuli fylgja almennri launaþróun eða neysluvísitölu, eftir því hvort er hærra, þannig að aldraðir og öryrkjar séu tryggðir gegn kjaraskerðingu. Þetta er grundvallaratriði og meiri réttindi en þeir hafa í nokkru öðru landi. Það skulu menn muna.

Eins er öllu snúið á hvolf þegar menn tala um skerðingu vegna tekna. Minnumst þess hvaðan þessi regla er komin. Það var 1971 að hið stóra samkomulag var gert milli aðila vinnumarkaðarins og allra stjórnmálaflokka á Íslandi. Það var þverpólitísk samstaða um þá vegferð, að byggja upp almenna lífeyrissjóði vegna þess að menn stóðu mismunandi að vígi. Hinn almenni markaður var rétt að byrja meðan ríkisstarfsmenn og aðrir voru komnir nokkuð langt á veg með að byggja upp sjóði sína. Þá var samkomulag um að búa til tekjutryggingu til að tryggja þá sem verr stóðu. Menn verða að hafa þetta í huga. Vegna þess sem komið hefur fram er nauðsynlegt að fara í gegnum þetta, endurskoða þetta og vita hvert við ætlum að stefna, en þá eigum við að hafa þetta fyrir meginmarkmið.

Aldraðir eru ekki samstæður hópur. Aldraðir samanstanda af fólki á mismunandi aldri. Þeir sem teljast aldraðir í dag standa mun betur að vígi en þeir sem urðu aldraðir fyrir 20 árum. Eldri hluti eldri borgaranna er vandamálið sem við þurfum að stríða við. Við skulum fara yfir málið á þeim grundvelli sem við lögðum 1971. Sá grundvöllur getur einn leitt okkur til þeirrar niðurstöðu sem við ætluðum alltaf að ná, að lífeyrissjóðakerfið og sparnaðurinn gæti staðið undir heilbrigðri og góðri stöðu aldraðra.