132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[17:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu um frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um málefni aldraðra, ekki síst í tilefni af þeirri umræðu sem fram fór fyrr í dag þar sem m.a. var nokkuð rætt um skort á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og hæstv. ráðherra gumaði sérstaklega af því að hann hefði staðið við þá samninga sem gerðir voru við Samtök aldraðra á árinu 2002.

Mér finnst að hæstv. ráðherra hefði átt að fara betur yfir málin en hann gerði í þessari örstuttu ræðu sinni, þar sem hann greindi fyrst og fremst frá því að hér væri um að ræða hækkun á þeim skatti sem rennur í Framkvæmdasjóð aldraðra, og gera betri grein fyrir þeirri þróun sem verið hefur á framlögum í framkvæmdasjóðinn og hvernig þeim hefur verið ráðstafað.

Þegar við lítum á þær áætlanir sem fyrir liggja, ég er með þær alveg fram til 2004 og ég veit ekki hvort nokkur veruleg breyting hafi orðið á árinu 2005 eða áform um árið 2006, þá er það góður meiri hluti af þeim framlögum sem fara í Framkvæmdasjóð aldraðra eða um helmingur sem rennur til annarra verkefna en í stofnkostnað og framkvæmdir. Okkur er auðvitað kunnugt um þörfina fyrir hjúkrunarrými þegar 500 manns eru á biðlista eftir rýmum og þar af 270 manns í mikilli neyð. Ég held að full ástæða sé til þess að hæstv. ráðherra og stjórnvöld skoði það þegar þau skera svona niður stofnkostnaðarframlög úr þessum sjóði og láta þau renna að verulegu leyti til viðhalds hve stór hópur aldraðra er á bráðadeildum spítalanna og bíður eftir hjúkrunarrými þar sem um miklu dýrari rými er að ræða, og að hæstv. ráðherra skoði í því samhengi hvað sparaðist í rekstrarkostnaði ef hraðað yrði uppbyggingu á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða.

Hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því þegar 500 manns eru á biðlista eftir hjúkrunarrýmum að aldurspíramídinn er þannig að öldruðum mun fjölga á komandi árum sem kallar að sjálfsögðu á enn meiri þörf fyrir hjúkrunarrými en er í dag. Kostnaður við að hafa sjúkt fólk á bráðadeildum er t.d. þrisvar til fjórum sinnum meiri en ef þeir fengju hjúkrunarrými. Eftir því sem ég er upplýst um eru a.m.k. 80 einstaklingar á bráðadeildum sem bíða eftir hjúkrunarrými. Það er því lítill sparnaður eða fyrirhyggja að hafa þetta fyrirkomulag á.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort heildarendurskoðun á húsnæðismálum aldraðra og uppbyggingu á hjúkrunarrýmum standi fyrir dyrum. Við höfum farið yfir það hér sem er auðvitað til vansa og skammar að fyrirkomulagið sé víða með þeim hætti hjá öldruðum að það séu kannski tveir og þrír og jafnvel fleiri saman í herbergi. Við þurfum að setja upp markvissa framkvæmdaáætlun um uppbyggingu á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða sem miða að því að aldraðir geti lifað við það mannsæmandi aðstæður á síðustu ævidögum sínum að þeir þurfi ekki að deila herbergi með öðrum. Ég spyr ráðherrann hvort það sé eitthvað til skoðunar í ráðuneyti hans.

Þá er full ástæða til að nefna að í þeirri áætlun sem gerð hefur verið um uppbyggingu á öldrunarþjónustu var gert ráð fyrir að bið eftir hjúkrunarrými væri ekki nema þrír mánuðir en biðin er núna, að því er ég best veit, a.m.k. ár ef ekki meira. Það hefur því alls ekki verið staðið við það sem menn stefndu að í uppbyggingu á öldrunarþjónustu.

Hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag að staðið hefði verið að fullu við samkomulag um uppbyggingu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða sem gerður var samningur um við Samtök aldraða á árinu 2002 rétt fyrir kosningar. Það hefur ekki verið gert samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Samtökum aldraðra. Það vantar um 60 rými upp á það sem hefði átt að vera búið að skila á árinu 2005 til að sá samningur hefði staðist. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að halda því fram og endurtaka það hér í ræðustól að það hafi verið staðið fyllilega við samkomulagið við aldraða sem gert var á árinu 2002 að því er varðar uppbyggingu á hjúkrunarrýmum?

Af því að þetta samkomulag kom til umræðu fyrr í dag þá er alveg ljóst að ekki hefur verið staðið við samkomulag sem gert var við aldraða um sveigjanleg starfslok í samningnum sem gerður var 2002 þar sem gert var ráð fyrir að þeir sem frestuðu töku lífeyris til að mig minnir 72 ára gætu fengið 6% hærri lífeyri á ári. Mér finnst full ástæða til að ráðherrann ræði það mál við þessa umræðu um Framkvæmdasjóð aldraðra, sérstaklega í tilefni af því sem hann sagði hér fyrr í dag að hann hefði ekki tækifæri til að fara yfir það vegna þess forms sem er á utandagskrárumræðum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að gera skipulega og markvissa áætlun, t.d. til fimm ára, um uppbyggingu á hjúkrunarheimilum sem miðaði að því að stærri skerfur af framlögum úr Framkvæmdasjóði aldraðra renni til uppbyggingar á hjúkrunarheimilum og minna í aðra þætti eins og fram hefur komið að undanförnu. Í því skema sem ég hef um breytingar á heimiluðum öldrunarrýmum frá árinu 2002–2004 kemur fram að vissulega hefur orðið fjölgun á hjúkrunarrýmum þó að hún sé ekki eins mikil og gert var ráð fyrir í samkomulaginu við aldraða, en á móti hefur dvalarrýmum fækkað og þróunin á dagvistarrýmum hefur ekki verið sem skyldi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugleitt að fara þá leið.

Loks, af því að ég ætla ekki að lengja umræðuna, þá spyr ég hæstv. ráðherra af því að við ræðum hér skattamál — þetta er nefskattur sem tekinn er af öllum 16 ára og eldri, er það ekki, fyrir utan aldraða? — hvort ekki sé eðlilegra af því að hér er um skattamál að ræða að þetta mál fari til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki í heilbrigðis- og trygginganefnd eins og verið hefur. Mér fyndist a.m.k. vel koma til greina að menn skoðuðu málið út frá því að hér er um skattamál að ræða sem yfirleitt er þá vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.

Eins og fram hefur komið í ræðu minni hef ég þungar áhyggjur af stöðunni að því er varðar uppbyggingu á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og tel að setja þurfi miklu meiri kraft í þau verkefni en verið hefur að undanförnu. Þó að vissulega beri að þakka það sem þar hefur verið gert er staðan samt þannig að það er ekki sparnaður í því að láta málin vera með þeim hætti sem þau eru í dag að fjöldi aldraðra sem geta verið í hjúkrunarrýmum skuli vera á bráðadeildum spítalanna. Ég spyr af því tilefni hvort ráðherrann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að gerð verði markviss áætlun til t.d. næstu fimm ára þar sem framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra til stofnkostnaðar og uppbyggingar verði aukin með tilliti til þess að hraða uppbyggingu á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og breyta þeirri stefnu líka, virðulegi forseti, og ég ítreka það, sem verið hefur í húsnæðismálum aldraðra þannig að aldraðir geti búið við mannsæmandi aðstæður í húsnæðismálum á ævikvöldi sínu.