134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:34]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hættan er sú ef við hverfum frá þessu og gerum þetta sveigjanlegra að þeir feður sem ekki eru í sambúð með barnsmæðrum sínum en börnin búa hjá móðurinni — yfirleitt er það þannig — muni ekki nýta sér fæðingarorlofið, sem margir gera í dag. Markmið laganna er að hvetja feðurna til að vera með börnum sínum, líka þó að þeir búi ekki með móðurinni. Svo er líka hætta á að það verði fleiri foreldrar sem skrái sig ekki í sambúð þótt þeir búi saman, sem kallað er bótasvik og því miður er allt of mikið af.

Ég held að það þurfi að fara mjög varlega í að auka sveigjanleikann í því að einstæðar mæður geti tekið níu mánuði í fæðingarorlof. Það vinnur gegn því markmiði laganna að gera karlmenn jafndýra og konur. Það hefur tekist með ágætum, ég held að um 80% feðra taki fæðingarorlof sem er alveg með eindæmum og á eftir að hafa mjög mikil áhrif til að auka tengsl feðra og barna og mjög mikil áhrif til að auka áhrif karlmanna inni á heimilunum sem hefur verið mikill skortur á.