137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[15:09]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka góða umræðu um framlagt frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur. Það eru nokkur atriði sem hafa komið fram í umræðunni sem vert er að staldra við.

Fyrst að því er varðar almennar áhyggjur af frumvarpinu. Eins og hér kom fram hjá hv. formanni umhverfisnefndar er ekki um að ræða skerðingu á rétti, heldur fyrst og fremst aukið gagnsæi og aukna kynningu til almennings. Varðandi áhyggjur Gunnars Braga Sveinssonar er um að ræða óverulegt þjónustugjald og í raun og veru eðlilegan kostnað sem hlýst af þeirri þjónustu sem Umhverfisstofnun mundi veita. Ég tek þó undir þær áhyggjur að þarna gæti verið um að ræða fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref og mér finnst full ástæða til að nefndin fari sérstaklega yfir þær vangaveltur sem hér hafa komið fram og jafnframt það að þetta frumvarp verði ekki til þess að koma í veg fyrir sprotastarfsemi.

Hins vegar er það þannig að, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson orðaði það, íslensk náttúra er göfug og hrein og ég ætla bara að gera þau orð að mínum. Það er einmitt og ekki síður þess vegna sem varúðarreglan á sérstaklega vel við á Íslandi, sú meginregla í umhverfisrétti sem er að finna í Ríó-yfirlýsingunni og felur í sér að það þarf að gæta sérstakrar varúðar og að ef um vísindalega óvissu er að ræða skuli náttúran njóta vafans. Sú nálgun er kannski hvergi eins mikilvæg og í landi sem er tiltölulega fjarri þeim áhrifum sem hér hafa verið rædd.

Ég neita því ekki að mér fannst afar áhugaverð umræða hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar varðandi að fresta öllum innleiðingum og leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis. Eins og málin standa erum við þó í þessu umrædda alþjóðlega samhengi þar sem okkur er gert að innleiða þessar tilskipanir innan tiltekins tímaramma. Ég er svo sem þeirrar skoðunar og deili henni með mörgum þingmönnum að það kann að orka tvímælis hvernig raðað er inn á dagskrá og hvaða mál eru tekin á undan öðrum. Þó held ég að á þessu snarpa sumarþingi sé þess gætt að í fyrsta lagi séu á dagskrá mikilvæg þingmál í ljósi efnahagsástandsins og í öðru lagi þau þingmál sem eru komin í skömm gagnvart erlendum samningum.

Varðandi spurningu og framsetningu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um erfðabreytt bygg á vegum ORF Líftækni er ljóst að hér skarast tímarammar að nokkru leyti. Hér leggjum við annars vegar fram frumvarp til laga um breytingu á lögum þar sem gert er ráð fyrir mun meiri opinberri umræðu og meiri kynningu en áður var samkvæmt þeim lögum sem hafa verið í gildi hvað þetta varðar. Á sama tíma leggur Umhverfisstofnun fram umsögn um þessa umsókn ORF Líftækni.

Mér er bæði ljúft og skylt að segja frá því í ræðustól Alþingis að Umhverfisstofnun íhugar nú í ljósi fjölda ábendinga og þessarar sérkennilegu stöðu sem nú hefur komið upp að framlengja annars vegar frest til athugasemda við þessa leyfisveitingu og halda hins vegar sérstakan kynningarfund um málið í Reykjavík. Um þetta er líka skýr heimild í reglugerð og sjálfsagt að koma til móts við þessar sérstöku aðstæður hvað þetta varðar. Ég ítreka að það er verið að íhuga þetta á Umhverfisstofnun en ekki hefur verið tekin um það endanleg ákvörðun.

Að öðru leyti þakka ég fyrir góða umræðu og vænti þess að frumvarpið fái góða og helst auðvitað hraða afgreiðslu í gegnum hv. umhverfisnefnd.