137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér er um margt áhugavert og um margt fagnaðarefni. Það er t.d. fagnaðarefni að skilgreina eigi betur og skýra grundvöll frístundaveiða sem er aftur grundvöllur atvinnurekstrar í ferðaþjónustu. Það er vaxandi grein að bjóða upp á frístundaveiðar fyrir erlenda túrista og íslenska í ferðaþjónustu og þarna er grundvöllur þessa atvinnurekstrar og frístundaveiða almennt skýrður og skilgreindur og það er gott. Ég hygg að samstaða ríki um það mál á þinginu.

Ég tel líka ástæðu til að fagna því að menn ætli að gera þessa tilraun með strandveiðar og taka þennan litla afmarkaða hluta af kvótanum og setja í þá tilraun. Ég mundi þá líka mælast til þess að þetta verði gert sem tilraun og menn reyni að draga lærdóm af henni.

Í ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra hér áðan kom fram að hann er sjálfur þeirrar skoðunar að samhliða því að þessi tilraun sé gerð eigi að fara fram vinna í ráðuneytinu og jafnvel líka í þinginu á vegum sjávarútvegsnefndar þar sem farið verði í saumana á því hvernig til hefur tekist að tilrauninni lokinni. Það eru mörg álitamál í þessu. Sum eru tæknileg eins og tæpt hefur verið á hérna. Er rétt að binda þetta við 12 tíma? Það getur mismunað sjávarplássum vegna þess að sums staðar er lengra á miðin en annars staðar. Talað hefur verið um að kannski ætti að endurskoða það að hafa hlutfallstakmarkanir á því hve veiða má mikinn ufsa og hve mikið má veiða af ýsu í þessu, af hverju má ekki veiða um helgar og ýmislegt þannig.

Það er síðan mikilvægt að skoða almennt hvað það þýðir fyrir byggðirnar að leyfa frjálsar strandveiðar af þessu tagi yfir sumarmánuðina. Mun þetta auka líf í byggðunum? Mun þetta skila sér í einhverri vinnu fyrir skólafólk? Það væri mjög jákvætt ef það mundi gerast. Mun það leiða til einhvers æðibunugangs í sjávarbyggðunum, þ.e. að menn drífi sig í upphafi hvers mánaðartímabils út í róður? Mun það leiða til aukinnar slysahættu? Það þarf að skoða margar hliðar á þessu máli og ég held að í öllu falli væri það mjög áhugaverð tilraun og full ástæða til að styðja það að þetta sé gert. Ef vel er á málum haldið getur þetta aukið líf í sjávarbyggðunum og í því er til mikils að vinna. En hins vegar verður að gera þá kröfu að sjávarútvegsnefnd taki það til mjög alvarlegrar skoðunar hvernig hægt verði að koma til móts við þær byggðir sem verða af byggðakvóta í kjölfar þessarar aðgerðar.

Þá erum við komin að stærri anga þessa máls sem aðeins hefur verið tæpt á í þessari umræðu og lýtur að því að af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið boðað að fara í mjög yfirgripsmiklar aðgerðir í sjávarútvegsmálum á þessu kjörtímabili. Hér er vitaskuld átt við fyrningarleiðina. Þó það sé ekki alveg ljóst, miðað við tal ríkisstjórnarflokkanna, hvort ætlunin er að fara þá leið eða ekki, þá er alveg skýrt, og mikilvægt að halda því til haga, að í þessari aðgerð, þessari litlu tilraun, vakna spurningar sem er mjög mikilvægt að taka til umfjöllunar þegar menn meta það hvort kalla eigi inn veiðiheimildir.

Það blasir við þegar menn fara í þessa tilraun að hér er náttúrlega um takmarkaða auðlind að ræða. Menn ætla að taka hluta af kvótanum af einum stað og setja hann annað og einhverjir verða eftir í sárum út af því. Menn verða að skoða hver reynslan er af þessari aðgerð, þessari litlu takmörkuðu tilraun, þegar menn ætla yfir þjóðfélagið allt að fara í þá aðgerð að innkalla kvótann í heild sinni og deila honum út einhvern veginn öðruvísi. Það eitt að við skynjum ugg í brjósti margra þeirra sem hafa stólað á byggðakvóta vekur spurningar um það hvort ekki verði mjög mikill uggur í brjósti margra þegar farið verður í það að innkalla kvótann í heild sinni. Margir munu þá sitja eftir með sárt ennið. Ef einhverjir sitja eftir með sárt ennið út af þessari litlu aðgerð er mjög líklegt að mjög margir muni sitja eftir með sárt ennið ef farið verður út í það að kalla kvótann inn í heild sinni þótt það sé á 20 árum.

Þegar við erum með takmarkaða auðlind er auðvitað vandasamt að ríkið taki að sér að deila út þessum kvóta. Það er náttúrlega sú spurning sem liggur til grundvallar því hvort maður er með eða móti fyrningaleiðinni — ekki endilega sú spurning hvort maður sé þeirrar skoðunar að þjóðin eigi kvótann eða ekki heldur hvort það er rétt að ríkið sé með þá umsýslu á sínum herðum að deila út þessum kvóta. Þeir sem aðhyllast fyrningarleiðina vilja að ríkið sé einhvers konar miðstöð í að deila út kvótanum og þeirri spurningu hefur ekki almennilega verið svarað hvernig eigi að deila út kvótanum af hálfu ríkisins, hvort það verður gert með einhverju markaðskerfi eða hvort það verði gert á félagslegum eða byggðalegum grunni eða eitthvað svoleiðis. Maður getur ekki gert annað en bíða spenntur eftir því að heyra þær útfærslur alla vega því að þær eru lykilatriði.

Þessi litla tilraun sýnir að það er alltaf vandasamt fyrir ríkisvaldið að koma að því að útdeila þessum gæðum. Eins dauði er annars brauð. Hér er tekinn ákveðinn hluti af byggðum sem eiga mögulega í miklum vanda og settur í frjálsar handfæraveiðar. Menn verða auðvitað að vera menn og ekki svo blindaðir af eigin hugsjónum um réttlæti að þeir geti ekki tekist á við þessar spurningar allar, þær eru mjög mikilvægar. Önnur spurning mun vakna í þessu öllu saman, í þessari litlu tilraun, sem er líka spurning þess eðlis að hún er mikilvæg í þessu stærra samhengi þegar menn eru að tala um að innkalla kvótann á landsvísu. Hún lýtur að því sem hefur verið talað um að margir af þeim sem seldu kvótann eru núna í einstaklega góðri stöðu til að njóta góðs af þessum frjálsu handfæraveiðum. Þeir seldu ekki bátana sína, þeir seldu bara kvótann og eru núna margir með fullar hendur fjár og í einstaklega góðri aðstöðu til að fara frítt á miðin.

Það getur ekki verið að þeir sem tala hvað hæst um réttlæti í þessu telji þetta vera réttlæti og í stærra samhengi, þegar menn ætla að fara að kalla inn kvótann, verða þessar spurningar mjög æpandi. Við viljum ekki skapa þannig ástand í sjávarútvegi á Íslandi að þeir sem eru með fullar hendur fjár eftir að hafa notið framsalsins og selt kvótann sinn standi síðan best að vígi þegar kemur að því að endurúthluta þessum kvóta aftur eftir að hann hefur verið innkallaður. Hvaða réttlæti er í því? Við verðum einfaldlega, allir hv. þingmenn, að vera menn til að taka slíkar spurningar alvarlega, spyrja hvað er réttlæti og hvað er ranglæti í stöðunni eins og hún er núna. Það eru ákveðnir aðilar í sjávarútvegi og það hlýtur að vera markmið löggjafarþingsins og markmið stjórnvalda að stuðla að því að þessir aðilar vilji vera áfram í greininni, þeir njóti góðs af góðum rekstri í sjávarútvegi og það verði ekki á einhvern hátt markmið kerfisins að reyna að koma þessum aðilum út úr greininni og einhverjum öðrum að þó að auðvitað verður líka að vera nýliðun.

En þessi spurning hins vegar er ekki nema óbeint hluti af því lagafrumvarpi sem við erum að ræða hérna núna en ég hugsa að ef menn halda vel á spöðunum og ef menn ætla virkilega að læra af þessari tilraun og efna kannski til einhverrar skýrslugerðar um árangurinn af þessu öllu saman þá muni það verða ansi gott veganesti inn í alhliða umræðu um það hvernig menn ætla að standa að því, ef menn ætla að fara út í það, að innkalla kvótann og deila honum út aftur.