137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:16]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara gera athugasemd við þá hugsun sem birst hefur í ræðum tveggja hv. þingmanna um að eitthvert sérstakt ranglæti sé fólgið í því að menn sem hafa selt sig út úr greininni fái að stunda strandveiðar í tvo mánuði á ári. Annars vegar erum við með kerfi sem hefur verið við lýði í áratugi og verið gífurleg deila um vegna atvinnuréttinda sem menn hafa fengið án endurgjalds frá ríkinu og selt eða leigt frá sér dýrum dómum og svo hins vegar handfæraveiðar í tvo mánuði á ári, 800 kíló á dag.

Það er ólíku saman að jafna í þeim efnum og mér finnst mikill mismunur á annars vegar ranglætinu sem felst í því að menn hafa ekki komist inn í þessa grein nema með því að kaupa til þess atvinnuréttindi af öðrum sem fyrir voru í henni og svo aftur því að fá þennan takmarkaða rétt til handfæraveiða.

Eftir stendur í allri þessari umræðu, einkum af hálfu þeirra sem gjalda varhuga við hinni svokölluðu fyrningarleið, að koma með úthugsaða leið þannig að menn geti mætt því áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem segir að fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga feli í sér mismunun. Það er ekki jafnt aðgengi þegnanna að sameiginlegri auðlind.

Hvernig sjá menn, sem eru viljugir til þess að koma á breytingum í þessu kerfi, fyrir sér að hægt sé að koma til móts við það álit mannréttindanefndarinnar? Eða finnst þeim það ekki skipta neinu máli?