138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[18:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tel að á þessu stigi sé ekki þörf á að hafa langt mál um þetta frumvarp. Hæstv. ráðherra hefur gert ágæta grein fyrir efni þess og eins og fram hefur komið hefur þetta mál komið til umræðu í þinginu á undanförnum tveimur vetrum. Haustið 2007 og haustið 2008 lagði Björn Bjarnason, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, fram frumvörp sem voru að mestu leyti samhljóða því frumvarpi sem hér er lagt fram. Málið hefur fengið allgóða og ítarlega meðferð í allsherjarnefnd Alþingis, ekki síst á fyrsta vetrinum eftir að það var lagt fram, 2007–2008. Meðferð málsins í vor var öllu snubbóttari enda tíminn takmarkaður í ljósi þess að alþingiskosningar voru um vorið og takmarkaður tími til að fjalla um það að því leyti. Engu að síður liggja fyrir sjónarmið í þessu máli bæði frá því í fyrra og hittiðfyrra og sannast sagna er allgóð samstaða um flesta meginþætti þessa máls. Því er það auðvitað von mín og ég vænti þess af öðrum þingmönnum að þetta mál fái góða afgreiðslu.

Það má segja að við meðferð málsins á vettvangi allsherjarnefndar hafi tveir þættir í rauninni staðið út af borðinu. Annars vegar sá þáttur sem kom fram í orðaskiptum okkar hæstv. ráðherra áðan sem varðar breytingar á ákvæðum sem snúa að hryðjuverkum en eins vöknuðu við umræður í allsherjarnefnd á sínum tíma nokkrar spurningar um samspil þeirra reglna sem þarna voru settar fram og skattareglna. Þegar allsherjarnefnd lauk umfjöllun málsins síðasta vor var það á þeim nótum að þessi atriði stæðust ágætlega hvað varðar þetta frumvarp en því var hins vegar vísað til fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytis af hálfu nefndarinnar í nefndaráliti að tekið yrði til skoðunar hvort breyta þyrfti einhverjum ákvæðum skattalaga þannig að ekki yrði um árekstra að ræða. Til að rifja upp var málið með þeim hætti að það var einkum skattrannsóknarstjóri sem gerði athugasemdir við ákveðin ákvæði og taldi að það kynni að vera um að ræða árekstra eða misræmi milli reglna sem er að finna í þessu frumvarpi og skattareglna. Allsherjarnefnd tók því þá afstöðu, í raun í samræmi við ráðleggingar lögfræðinga sem fyrir nefndina komu, að þetta gengi vel upp frá refsiréttarlegum sjónarmiðum eða forsendum. Hins vegar var það skilið eftir að hugsanlega þyrfti að gera breytingar á skattalögum ef þetta frumvarp yrði að lögum. Ég vil spyrja ráðherra hvort hún viti til þess að fjármálaráðuneytið hafi tekið einhverja slíka skoðun á síðustu mánuðum frá því að allsherjarnefnd lauk umfjöllun um þetta mál síðasta vor, í byrjun apríl ef ég man rétt.

Hins vegar verður að geta þess í sambandi við hitt málið sem ágreiningi hefur valdið í þessu sambandi, varðandi þann þátt sem sneri að hryðjuverkum, að ráðherra gat þess ekki að þar hefur verið ákveðinn pólitískur ágreiningur. Ástæðan fyrir því að þetta mál hefur stundum lent í hnút á þessari vegferð, svo maður noti það orðalag, hefur verið andstaða ákveðinna þingmanna við þau ákvæði sem snúa að viðbrögðum eða viðurlögum við hryðjuverkum og efasemdir á pólitískum forsendum um það. Þetta vantaði inn í þá mynd sem hæstv. ráðherra dró upp af þessu vegna þess að við meðferð málsins bæði veturinn 2007–2008 og eins í fyrravetur hefur fyrst og fremst verið andstaða af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við að gerðar yrðu breytingar á ákvæðunum sem vörðuðu hryðjuverkin. Án þess að ég ætli að fara í efnislega umræðu um það er rétt að halda þessu til haga vegna þess að í því er skýringin fólgin á því að þetta mál hefur ekki fram til þessa verið afgreitt á Alþingi, svo við höfum það á hreinu. Ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki ítrekað sett fótinn fyrir afgreiðslu málsins vegna andstöðu sinnar við ákvæðin um hryðjuverkin hefði þetta mál trúlega verið afgreitt vorið 2008. Mér finnst nauðsynlegt að í upprifjun okkar og stuttum orðaskiptum um forsögu málsins komi þetta fram. Það hefur legið fyrir að aðrir flokkar sem hafa staðið að málum í þinginu og á vettvangi allsherjarnefndar voru sáttir við frumvarpið í megindráttum eins og það kom fram haustið 2007. Í raun og veru hafa ótrúlega litlar efnislegar breytingar átt sér stað eða athugasemdir verið gerðar við þá þætti en andstaða Vinstri grænna hefur komið í veg fyrir að þetta mál hafi verið afgreitt.

Til að fresta þeim ágreiningi er sú leið valin nú að taka þennan þátt sem greinilega er viðkvæmur frá pólitísku sjónarmiði út fyrir rammann, taka hann út fyrir frumvarpið og afgreiða þá þætti sem góð sátt er um. Það er aðferðafræði sem í sjálfu sér er ekkert athugavert við en skilur auðvitað eftir ágreiningsmálið sem varðar það hvort við eigum og þurfum að breyta ákvæðunum sem varða hryðjuverkin. Ég tel reyndar að svo sé en ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu af því að það er í sjálfu sér ekki á dagskrá hér. Hins vegar skipta aðrir þættir málsins verulegu máli eins og viðbrögð við skipulagðri glæpastarfsemi, ákvæði um upptöku eigna, ákvæði sem varða mansal og annað þess háttar. Góð samstaða hefur náðst um það og í sjálfu sér hefur ekki verið talin ástæða til að hrófla mikið við því. Þess vegna held ég í rauninni að maður geti lýst yfir miklum stuðningi við frumvarpið eins og það er þó að auðvitað hefði verið gott ef hægt hefði verið að klára málið miklu fyrr og þá í þeirri mynd sem það kom upprunalega fram.

Hvað um það. Töluvert mikil vinna hefur verið lögð í þetta á vettvangi allsherjarnefndar en auðvitað var um að ræða aðra nefnd og síðan hafa komið kosningar og miklar mannabreytingar verið þannig að sennilega mun málið krefjast þess að allsherjarnefnd fari ofan í efnisþætti málsins í meðferð sinni en láti ekki nægja að styðjast við vinnu fyrri nefndar enda sátu fáir af núverandi nefndarmönnum í allsherjarnefnd í nefndinni á síðasta kjörtímabili. Við þurfum því að vinna í þessu. Hins vegar sýnir sú samstaða sem hefur náðst um þá þætti málsins sem eru í frumvarpinu að undirbúningurinn hefur verið góður, vel hefur verið staðið að verki og full ástæða er til að styðja þetta frumvarp og hraða framgangi þess eins og kostur er.