148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka Flokki fólksins fyrir þetta ágætismál. Ég vil taka það fram alveg sérstaklega að ég er hlynnt því að við hækkun þetta þak þótt ég sé ekki tilbúin til að afnema það algjörlega. Ég horfi til þess fyrst og fremst að lífeyrisþegar eru mismunandi staddir. Það eru auðvitað aðrar tekjur, eins og úr lífeyrissjóðum, sem skerðast í dag varðandi fjármagnstekjuskatt. Mér finnst að það þurfi að spila þetta þrennt saman til að nýta þá fjármuni ríkisins sem best. Við vitum að það kostar ríkið að afnema þessar skerðingar og þá vil ég horfa til þeirra þriggja tekna sem möguleikar eru á fyrir ellilífeyrisþega að fá eftir að þeir ljúka vinnu.

Við vitum að það geta ekki allir, því miður, farið út á vinnumarkaðinn, en ég tel það vera mjög hollt og gott og sparar ríkinu ef þeir geta gert það og gera það. Það skilar sér aftur með ýmsum hætti, bæði í neyslusköttum og öðru, það skilar sér í skatttekjum og það skilar sér í félagslega betra umhverfi fyrir fólk og í bættri líðan og heilsu. Það má nefna svo ótal margt. Það eru því miður ekki allir, fólk sem hefur unnið erfiðisvinnu alla ævi og er um sjötugt er búið að fá nóg, skrokkurinn þolir ekki meira. Ég horfi til þess fólks sem hefur haft lágar ævitekjur í gegnum tíðina og fær að hámarki 200 þús. kr. úr lífeyrissjóði sínum. Eftir 25 þús. kr. er 45% skerðing á greiðslum frá Tryggingastofnun gagnvart lífeyrissjóðstekjum. Mér finnst það mjög ósanngjarnt, sérstaklega gagnvart lágtekjufólki sem hefur ekki háan lífeyri. Ég hef minni samúð með því fólki sem hefur háan lífeyri og hefur verið á góðu kaupi allt sitt líf og fær kannski rúm 70% af ævitekjum sínum þegar það fer að taka lífeyri. Það fólk munar ekki um það. En það er annað með fólk sem fær kannski með lífeyri sínum 350 þús kr. á mánuði og þá á eftir að skerða greiðslur frá Tryggingastofnun og taka skatta, mér finnst það blóðugt.

Þess vegna vil ég horfa á að nýta fjármuni ríkisins til handa þeim hópi ellilífeyrisþega sem er ekki vel settur. Sá hópur er ekki einsleitur, við vitum það vel. Ég vil nýta peninga ríkisins sem best gagnvart þeim hópi sem er verr settur og að fólk geti haft tekjur sem miðast að lágmarki við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins, og við getum auðvitað gert enn betur en það.