149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það var svo sem margt sem ég gat tekið undir en það er líka margt sem ég á erfitt með að átta mig á. Oft hef ég spurt hv. þingmann um skoðanir hans þegar kemur að skattamálum, hversu langt eigi að ganga í því sem hann kallar tekjutækifæri, þ.e. hve langt við eigum að ganga í því að nýta þessi tekjutækifæri. Einu sinni var haft á orði hér í ræðustól að við Sjálfstæðismenn værum duglausir við að nýta okkur möguleika í að afla ríkissjóði tekna. En það er nú annað.

Ég ætla að beina spurningu til hv. þingmanns vegna þess að ég átta mig ekki alveg á hvort hann er að mæla fyrir því, þegar kemur að barnabótum, að barnabætur eigi að ganga til allra óháð tekjum, sem ég held reyndar að sé gilt sjónarmið. Þá getum við velt því fyrir okkur hvort við eigum hreinlega að innleiða persónuafslátt barna sem foreldrar geta þá nýtt sér óháð tekjum. Eða eru barnabætur kannski í skilningi Samfylkingarinnar, og þá sérstaklega í huga hv. þingmanns, tæki til að styðja fyrst og fremst við þá sem standa lakast?

Það er auðvitað sá skilningur sem menn hafa haft, það er það sem menn hafa verið að reyna hér í gegnum árin, að beina bótum fyrst og fremst til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda en ekki þeirra sem þurfa ekki á aðstoð eða fyrirgreiðslu af hendi ríkisins að halda.

Spurningin er einföld: Eru barnabætur í huga þingmannsins tekjujöfnunartæki eða er rétt að afnema allar tekjuskerðingar?