149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel skynsamlegt að þessi fjárhæðarviðmið fylgi þróun meðallauna í landinu til lengri tíma litið. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að ég tel, nema ákvörðun sé tekin um að breyta skattbyrði í kerfinu, að hlutfallsleg skattbyrði tekjutíundanna eigi að vera nokkuð sambærileg frá ári til árs að teknu tilliti til launaþróunar. Einstaklingur sem er í fimmtu tekjutíund, eða einhvers staðar í miðgildi tekna, borgar þá svipaða virka skattprósentu frá ári til árs ef launaþróun hans er í takt við almenna launaþróun í landinu en breytist ekkert sérstaklega. Ég tel það bara stöðugra skattkerfi. Ég held að við eigum að geta gengið að því nokkuð vísu að hvað þetta varðar séum við ekki að fikta. Leikritið sem við erum gjarnan í í núverandi skattkerfi er á þá leið að með því að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launavísitölu heldur bara vísitölu neysluverðs þýðir það yfir lengri tíma litið að skattbyrðin eykst. Svo getum við sagt: Nú hefur skapast svigrúm til þess að lækka skattprósentuna um 1%. En í raun og veru var virk skattprósenta að hækka allan tímann út af því að laun voru að hækka langt umfram verðlag. Persónuafslátturinn var þar af leiðandi að vega miklu minna fyrir launþegann.

Það er auðvitað mjög fallegt að koma sem stjórnmálamaður og segjast vera að lækka skatta, en það er ekkert verið að lækka skattana, það er bara verið að aðlaga skattkerfið aftur að þeirri breytingu sem hefur orðið vegna þessa misræmis.

Það er hins vegar alveg rétt að það er mjög dýrt að hreyfa persónuafsláttinn í núverandi fyrirkomulagi af því að persónuafsláttur er fyrir alla launþega. Ég er í grundvallaratriðum mótfallinn því. Ég tel að hátekjufólk eigi ekkert að vera með persónuafslátt, það á bara að vera búið að fasa út þennan persónuafslátt þannig að hann nýtist fyrst og fremst lægri tekjuhópunum. Þá er líka talsvert auðveldara og ódýrara fyrir ríkið að stilla hann af.