149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð ósköp einfaldlega að lýsa furðu minni á þessum málflutningi hér. Ég þykist hafa séð það í fjárlagafrumvarpinu að þessi tala væri borin fram 0,05%. Ég taldi mig hafa öruggt land undir fótum þegar ég vitnaði í fjárlagafrumvarpið þannig að hv. þingmaður verður bara að útskýra nánar hvaðan hann hefur sínar tölur.

Ég stend við mínar tölur þangað til mér hefur verið sýnt fram á að annað standi í fjárlagafrumvarpinu. Kannski skiptir það ekki öllum máli. Ef þetta er sú tala sem ég taldi mig hafa séð í fjárlagafrumvarpinu er sú fjárhæð sem leggst þarna til viðbótar ofan á lán heimilanna, um milljarður. Ef það er sú tala sem hv. þingmaður heldur fram þá eru það 300 milljónir.

Söm er gjörðin. Samar eru hliðarverkanirnar. Það sem felst í málflutningi mínum er ekki aðallega hver nákvæmlega fjöldi króna og aura er í þessu, heldur hef ég með þessu sýnt fram á að gjaldtaka af þessu tagi, sem er bara eitt dæmi, við erum með alls konar gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, hefur þær hliðarverkanir að höfuðstólar lána hækka, hvort sem það eru íbúðalán eða önnur lán sem eru verðtryggð, einnig lán fyrirtækja sem eru verðtryggð. Ég sýni fram á það með þessum málflutningi að aðstöðumunur aðila er algjör, annar verður að þola hækkunina, möglunarlaust og án þess að gera borið hönd fyrir höfuð sér, en hinn aðilinn eignast lögvarðar kröfur á heimilin. Og við sjáum hvernig farið hefur fyrir heimilunum.

Það var til að mynda á vakt flokks hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar (Forseti hringir.) sem engum vörnum sem hald var í var brugðið fyrir heimilin í hruninu. (Forseti hringir.) Við sáum það í svari hæstv. dómsmálaráðherra við nýlegri fyrirspurn frá mér að hér voru 10 þúsund fjölskyldur hraktar út af heimilum sínum, (Gripið fram í.) 30 þúsund manns að minnsta kosti. Ég ætla rétt að leyfa mér að vona að hv. þingmaður láti sér (Forseti hringir.) þær upplýsingar ekki í léttu rúmi liggja, eins og skilja mátti á orðum hans.