150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi gjaldið þá er því ætlað að standa undir fjármálaeftirliti. Eins og ég rakti í framsöguræðu minni mun gjaldið duga til þess, að viðbættu því sem gengið verður á eigið fé Fjármálaeftirlitsins. Þetta gjald er á endanum ákveðið eftir formlegt samráðsferli og eini ágreiningurinn sem hefur verið um það snýr í raun að umfangi eftirlitsins í landinu. Fjármálafyrirtækin í landinu hafa spurt sig hvort það þurfi þetta mikla regluverk, þetta marga starfsmenn, þetta mikið eftirlit. Þar höfum við frekar viljað ganga fram með þeim hætti að enginn vafi léki á að eftirlitsaðilar væru í stakk búnir til að hafa yfirsýn yfir markaðinn og þau atriði sem þeim eru falin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sömuleiðis mjög komið við sögu hér. (Forseti hringir.) Ég verð að fá að nefna örstutt að það þarf að fara yfir þessar athugasemdir. Það sem við erum að reyna að knýja fram með þessum gjöldum, urðunargjöldum, er breyting á hegðun. Við erum að reyna að fá breytingu, við erum ekki að fara í tekjuöflunaraðgerð.