150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég lagði á það áherslu í ræðu minni að árangur sæist af þessum nýju sköttum, að við vissum nákvæmlega hverju þessir nýju skattar skiluðu. Ég fór sérstaklega yfir kolefnisgjaldið, eins og hv. þingmaður hefur væntanlega heyrt, og síðan nefndi ég sérstaklega urðunarskattana. Þetta hef ég lagt áherslu á í málflutningi mínum, að við vitum hver árangurinn er. Það liggur ekki fyrir í þessari skattheimtu, eins og hefur komið fram og verið staðfest af umhverfisráðuneytinu eins og ég nefndi.

Varðandi skatteftirlit og skattundanskot kemur það líka fram í frumvarpinu, eins og ég nefndi, að álagðir skattar upp á 17 milljarða hafa ekki skilað sér eða verða afskrifaðir. Við þurfum náttúrlega að fá upplýsingar um þetta í nefndinni og formaður nefndarinnar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, hefur einmitt komið inn á það og er sammála mér í því að við þurfum að fá upplýsingar um þetta, og það er hið besta mál.

En varðandi skattundanskotin er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að samstaða þarf að vera til staðar og ég tel að það þurfi að vera fullkomin samstaða, þverpólitísk samstaða, um að taka á þessum málum. Ég tel persónulega að 200 milljóna kr. aukið framlag skili einungis 250 milljónum, mér finnst það vera mjög lág upphæð, 200 milljónir í aukið skatteftirlit eru jú 200 milljónir — það er náttúrlega peningur í því og að sjálfsögðu fagna ég því. En maður spyr sig hvernig þessi árangur er reiknaður út o.s.frv. Mér finnst hann ekki vera nægilegur miðað við þessa upphæð og sérstaklega ekki í ljósi þess hver heildarupphæðin er, 80 milljarðar kr. Þetta er eitthvað sem allir flokkar verða að sameinast um, hvernig fara eigi í þessa hluti og hvernig taka eigi á þeim. (Forseti hringir.) Ég held að það sé niðurstaðan.