150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. En það stendur samt óhaggað að persónuafslátturinn gagnast best þeim sem eru á lægstu launum, bæði atvinnulaunum og lífeyrislaunum. Síðan er líka annað í sambandi við barnabæturnar. Eftir því sem mér skilst er byrjað að skerða barnabætur hjá hjónum við 325.000 kr. mánaðarlaun hjá hvoru fyrir sig. Það er undir þeim mörkum sem lágmarkslaun eiga að vera. Þarna er byrjað að skerða barnabætur við einhverja unglingataxta. Er það eðlilegt? Er hægt að byrja að skerða barnabætur við svona lágar tölur? Ef þær eiga að skila sér til barna hljóta þær að eiga að skila sér sérstaklega til þeirra barna sem búa við verstu kjörin.