150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og held að innst inni sé hann bara sammála mér, að það hefði verið heppilegast að einfalda skattkerfið. Eins og ég sagði áðan eykur það á gagnsæið og skilvirknina og dregur úr skattundanskotum o.s.frv. þannig að þegar upp er staðið held ég að Miðflokkurinn og Sjálfstæðismenn eigi nokkuð sameiginlega hugmyndafræði þegar kemur að því að einfalda skattkerfið. Vonandi fáum við einhvern tímann tækifæri til þess að vinna saman og einfalda skattkerfið. Hver veit. Það væri ánægjulegt að fá tækifæri til þess að reyna að einfalda þetta kerfi vegna þess að ég held að það geti aukið forskot okkar á ýmsum sviðum. Eins og ég nefndi áðan hefur sýnt sig þegar við lækkuðum skatta á fyrirtæki á sínum tíma að það var mjög skynsamleg ákvörðun sem í raun jók tekjur ríkissjóðs. Þarna eru leiðir sem sannarlega er vert að skoða. Það vantar ákveðna djörfung til að vilja skoða leiðir eins og t.d. bara flatan skatt. Ég er ekki að segja að það eigi að leggja hann á en ég segi að það eigi að skoða allar leiðir. Það er mikilvægast í þessu, að við finnum einföldustu og bestu leiðina, og þar held ég að við séum bara sammála, ég og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.