150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að bankarnir verða að gá að samkeppnisumhverfi sínu og tryggja að þeir séu að innleiða nýjustu tækni og séu með á nótunum varðandi þær breytingar sem eru að verða í samkeppnisumhverfinu. Þeir verða sjálfir að fjárfesta og umbreyta í rekstri sínum og skipulagi til að fylgja þeim breytingum sem eru að verða.

Varðandi vaxtamuninn þá hafa vextir verið hærri hér á landi. Vaxtamunurinn hefur samt sem áður verið að minnka, hann hefur verið að dragast saman. Ég hlýt að vekja athygli á því að vaxtastigið á Íslandi hefur að hluta til, í samanburði við önnur lönd, skýrst af mjög ólíkri stöðu hagkerfanna. Við getum nefnt í því sambandi líka að ef menn ætluðu að leggja inn á reikning í sumum nágrannaríkja okkar fengju þeir neikvæða vexti, í Svíþjóð, Danmörku. Menn þyrftu að borga fyrir að geyma peninga í banka. Það er hin hliðin á því hversu lágir útlánavextirnir eru. Útlánavextir á Íslandi, t.d. á húsnæðismarkaði, hafa líklega aldrei í sögunni verið lægri þannig að því leytinu til höfum við verið að þokast í rétta átt.

En þetta eru réttar ábendingar hjá hv. þingmanni, samkeppnisumhverfi bankanna er að breytast mjög mikið út af fjártækninni. Það skiptir öllu að bankarnir fylgist vel með þeirri þróun og nýti sér þau tækifæri sem í breytingunum liggja en sitji ekki eftir og tapi tilverugrundvelli sínum eða rekstrargrundvelli. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég tel óréttlætanlegt að ríkið sé með þetta mikið eigið fé bundið í fjármálakerfinu, líklega yfir 300 milljarða af eignum. Það er þá betra að einkaaðilar taki að sér að standa í þeirri samkeppni og við færum okkur úr rekstri fjármálafyrirtækja yfir í að hugsa bara um regluverkið, umgjörðina og nýtum fjármunina í annars konar uppbyggingu í landinu.