151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ætti nú að vita betur hver staðan var á þessum kerfum öllum þegar efnahagurinn hrundi hér árið 2008. Að hæstv. ráðherra skuli bera saman stöðuna sem við vorum í þá og þá sem við erum í í dag er algerlega fáránlegt. En burt séð frá því voru atvinnuleysisbætur hækkaðar upp í 95% af lágmarkslaunum árið 2009. Í janúar 2009 hækkuðu bætur almannatrygginga á sama hátt þannig að þær nýttust best þeim sem verst stóðu í því kerfi. Og ég get dælt til hæstv. ráðherra endalausum upplýsingum um það hvernig hefur hægt og rólega gliðnað á milli launamanna og þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga í hans tíð, frá árinu 2013 og til dagsins í dag.

Já, það er rétt að við tókum út þann hluta barnabótanna sem var ekki launaskertur þegar við vorum í erfiðum aðstæðum. En við hækkuðum þær fyrir þá sem þurftu meira á því að halda. Og um leið og við sáum til lands, um leið við sáum að við vorum að ná saman gatinu á fjárlögum, hækkuðum við barnabæturnar. Þá lögðum við sérstaka áherslu á hag barna og hækkuðum barnabætur um 30%, ef ég man rétt, í fjárlögum fyrir árið 2013.

En síðan hefur sigið á ógæfuhliðina þegar við jafnaðarmenn hefðum viljað taka enn ákveðnari skref í átt til betri bóta í almannatryggingakerfinu, húsnæðiskerfinu og barnabótakerfinu. Hér er ekki um nein yfirboð að ræða. Hér erum við aðeins að tala um raunverulega stöðu þess fólks sem verst stendur á Íslandi. Við erum að tala um stöðu fátækasta fólksins á Íslandi. Það dregur í sundur með því og launamönnum og það skrúfast alltaf (Forseti hringir.) neðar og neðar í fátæktargildruna. Við verðum að taka á því og ríkisstjórnin er ekki að gera það.