151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, við skulum bara halda okkur við staðreyndir málsins. Hverjir voru stýrivextir árið 2009, herra forseti? Manstu það? Þeir voru 18%. Þeir eru 1% í dag. Þau vaxtakjör sem okkur buðust á þessum árum til að taka lán voru í hæstu hæðum. Reyndar vildi enginn lána okkur eftir efnahagshrunið. Nú eru lánakjörin allt önnur og lánsfé er nánast ókeypis. Og þegar hæstv. ráðherra segir að við þurfum að skapa störf, og hvað það nú var sem hann sem taldi hér upp áðan, en ekki að huga að velferð fólksins í landinu segi ég: Við þurfum að skapa störf. Við þurfum að koma til móts við bæði karla og konur en ekki að gera eins og hæstv. ríkisstjórn sem boðar kynjahalla í úrræðum sínum og lætur halla á konur sem þó eru fleiri atvinnulausar í landinu.

En við verðum líka að efla hér velferð. Og það er ekki nóg að horfa bara til fyrirtækja, og meira að segja ekki allra fyrirtækja, og hjálpa þeim að segja upp fólki. Það þarf að horfa á efnahag heimilanna, það þarf að horfa til þeirra sem þurfa að bera þyngstu byrðarnar, þeirra sem eru atvinnulausa fólkið í landinu. Það þarf að horfa á þá landshluta þar sem atvinnuleysi vex hratt, eins og á Suðurnesjum þar sem það er komið yfir 20%. Það þarf að gera hvort tveggja. Við þurfum auðvitað að fjármagna úrræðin með lántöku til skamms tíma en til lengri tíma með réttlátara skattkerfi, með fjölbreyttara hagkerfi og (Forseti hringir.) auðvitað með sanngjörnum arði af auðlindum þjóðarinnar.