152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þau orð sem hafa fallið varðandi framkomu og hegðun ráðherra ríkisstjórnarinnar í aðdraganda kosninga. Nú hefur sú sem hér stendur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um opinber fjármál sem bannar ráðherrum að dreifa fjármunum átta vikum fyrir kosningar, enda er slík framkoma með öllu ólýðræðisleg. Að auki hef ég óskað eftir því að Ríkisendurskoðun fari ofan í saumana á því hvernig ráðherrar hegðuðu sér síðustu mánuði fyrir kosningar. Það verður að vera eitthvert aðhald með ráðherrum, framkvæmdarvaldinu, og þegar ráðherrar taka þá ákvörðun einir síns liðs að hafa ekkert þing að störfum í fjölda mánaða til að geta eftir eigin hentugleika dreift fjármunum almennings (Forseti hringir.) í hugðarefni sín til að laða að kjósendur, þá hljótum við að biðja Ríkisendurskoðun um aðstoð.