152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið. Hann sagði að tekjujöfnuður skipti máli í sínum huga svo að ég vænti þess að sú ríkisstjórn sem nú er að hefja störf, eða endurnýja heitin eftir fjögurra ára starf, grípi til afgerandi aðgerða til að auka jöfnuð í íslensku samfélagi. Það framleiðniviðmið sem stungið er upp á í skýrslu Axels Halls, sem hæstv. fjármálaráðherra nefnir, er gott skref út af fyrir sig en það þarf að ganga lengra og ég velti fyrir mér t.d. hvort ekki þurfi t.d. að gæta þess, þótt ekki verði kannski miðað við framleiðni, að frítekjumörk í almannatryggingakerfinu hreyfist svolítið í takt við t.d. persónuafslátt og skattleysismörk í tekjuskattskerfinu til að auka jöfnuð. Við þurfum að draga úr og stöðva þessa langvarandi kjaragliðnun í almannatryggingakerfinu. Ég hvet hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, fyrst honum er annt um tekjujöfnuð, til dáða.