152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessar fínu umræður sem hafa verið hér og reyndar líka fyrir helgi í tengslum við fjárlagaumræðuna. Ég hef setið á þingi í einhver ár og mér hefur fundist þessi umræða vera fróðleg og gagnleg og áhugavert hvernig þingmenn, eðli málsins samkvæmt, með ólíka flokka hér á þingi, nálgast málið úr ólíkum áttum. Það er fróðlegt og um leið gagnlegt og fær mann kannski til að hugsa þetta aðeins breiðar.

Við ræðum frumvarp sem oft er nefnt bandormurinn, breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir næsta ár. Það var umræða áðan, undir fundarstjórn forseta, um að stjórnarþingmanna væri saknað — ekki bara að þeir séu ljómandi skemmtilegir margir hverjir og hafi margt að segja heldur hefði ég haldið að einhverjir af þessum 38 þingmönnum, fyrir utan kannski fjármálaráðherra, myndu tjá sig um mál eins og þetta sem snertir útgjöld og álögur. Þó að langur tími hafi liðið frá kosningum þar til ríkisstjórnin var mynduð er samt það stutt frá kosningum að mér eru ofarlega í huga ýmsar greinar frá fólki sem nú er orðið þingmenn sem gumaði sig af því að Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði alltaf skatta og álögur. Það er ekki endilega hægt að sjá á þessu máli svo að því sé til haga haldið.

Mig langar aðeins að byrja á því sem skiptir kannski mestu máli. Sumar þessar breytingar eru ekki óeðlilegar, bara engan veginn. Það eru mörg jákvæð skref stigin í þessu máli og hefur m.a. verið bent á viðmið bóta almannatrygginga, barnabóta o.s.frv. Þar eru stigin skynsamleg skref til hagsbóta fyrir langflesta. Það skiptir mestu máli, ef við tökum þetta mál og líka fjárlagafrumvarpið, og við tökum undir það með ríkisstjórninni, að við vöxum út úr vandanum. Það er gríðarlega mikilvægt. En við verðum líka að hafa í huga að vaxtagjöld eru orðin fimmti stærsti þátturinn þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs og þegar við sjáum spána fram til 2026 munu þau útgjöld einungis vaxa. Þrátt fyrir að skuldahlutfall Íslands sé í þokkalegu lagi miðað við sumar aðrar þjóðir er vaxtabyrðin engu að síður þung hér. Hún er hlutfallslega þyngri hér en annars staðar af því að við búum í hávaxtaumhverfi, þegar við erum í krónuumhverfi. Við þurfum því að fara varlega þegar kemur að útgjöldunum þegar sú mynd er höfð í huga.

Í frumvörpunum er heimild fyrir ríkissjóð, og við hljótum að taka á því þegar þar að kemur, af því að við erum að ræða hér tekjuhlutann, til að taka ríflega 200 milljarða lán. Við hljótum að ræða hvort þeirri heimild verður beitt og þá hvaða áhrif það muni hafa á stöðu ríkissjóðs. Ég geri ráð fyrir að hv. fjárlaganefnd skoði þetta af því að við þurfum einmitt að vaxa út úr vandanum. Við horfum fram á þetta: Verðbólga er mikil. Við erum í hröðu vaxtahækkunarferli. Við sjáum fram á minni hagvöxt eftir ár, hagvöxt sem verður minni en raunvextir verða. Það þýðir að ekki er hægt að vaxa út úr vandanum öðruvísi en að beita öðrum hefðbundnum aðferðum sem við þekkjum og ríkisstjórnin er að reyna að sneiða hjá. Við þurfum að tala tæpitungulaust um þetta af því að ekki er hægt að sjá, hvorki í þessu frumvarpi né öðrum frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, hvernig örva á atvinnulífið og efnahagsumhverfið þannig að við getum stigið það skref sem við erum sammála ríkisstjórninni um, þ.e. að vaxa út úr vandanum. Þau teikn eru ekki á lofti af því að við höfum ekki stöðugan gjaldmiðil. Við erum ekki með fyrirsjáanleika í gjaldmiðlamálum og því til viðbótar eru þær risaáskoranir sem við blasa eftir ríflega ár þegar kemur að vinnumarkaðinum.

Ég ítreka að ég vil hvetja aðila vinnumarkaðarins til að semja af skynsemi og koma líka upp ákveðnum fyrirsjáanleika fyrir vinnumarkaðinn og um leið fyrir samfélagið allt þegar kemur að launahækkunum, þ.e. að þær breytingar verði sem raunverulega stuðla — ég hef heyrt hæstv. fjármálaráðherra og fleiri þingmenn tala um að það skipti mestu máli — að bættum ráðstöfunartekjum fólks. Ég tek heils hugar undir það. Þegar verðbólgu- og vaxtaumhverfi er með þeim hætti sem nú er er ábyrgð aðila vinnumarkaðarins gríðarleg. Ég vil enn og aftur beina orðum mínum til þeirra um að henda það á lofti um leið og við skiljum líka skilaboðin sem verkalýðshreyfingin sendir út, t.d. um ráðstafanir varðandi húsnæðiskaup, húsnæðisuppbyggingu, ungs fólks og efnaminna fólks, og skilaboðin frá Samtökum atvinnulífsins og fyrirtækjum sem ítreka að samhliða kröfunni um öflugt atvinnulíf þurfum við bætt rekstrarumhverfi.

Við þurfum að einfalda kerfið, gera það gegnsærra, gera það dínamískara þannig að atvinnulífið geti samhliða kröfunni um að vaxa út úr vandanum farið að hlaupa hraðar. Það gerist náttúrlega helst með stöðugum gjaldmiðli. Þið þekkið þá umræðu af hálfu okkar í Viðreisn. En meðan við búum við krónuumhverfi þurfum við að beita öllum tiltækum ráðum til þess einmitt að ýta undir atvinnulífið og halda utan um atvinnulífið þannig að það geti hlaupið hraðar. Þar þurfum við að ýta undir einfaldara kerfi. Ég hefði viljað sjá einhver teikn á lofti, einhvern fyrirsjáanleika, um að svigrúm verði til að lækka skatta eða tryggingagjald á lítil og meðalstór fyrirtæki.

Mig langar í þessu samhengi að undirstrika, af því að við erum að ræða bandorminn, að það hvernig við getum aflað aukinna tekna byggist meira og minna á verðlagshækkunum. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Bergþór Ólason sagði áðan, ég hefði viljað sjá ríkið beita ákveðinni hófsemd, velta þessu ekki strax út í verðlagið, en um leið vil ég draga fram að ríkið er ekki að fullnýta svigrúmið. Rétt skal vera rétt og það er að vissu leyti virðingarvert þegar kemur að flestum gjöldum þarna en ég hef spurningar varðandi tvenn gjöld a.m.k. sem mig langar að ræða aðeins hér. Það þarf að skerpa á forgangsröðun útgjalda miðað við spána og við ræðum fjármálastefnuna á eftir og þá verðum við að átta okkur á hvernig við getum skerpt forgangsröðun þegar kemur að útgjöldum — ég ítreka árangursmælikvarða og ábyrga hagstjórn.

Nokkur atriði, stikkorð: Gistináttagjald. Ég vil fagna því sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan um að fara þurfi í samvinnu við sveitarfélögin um að auka fyrirsjáanleika þegar kemur að gistináttagjaldinu. Það átti að taka gildi að nýju, minnir mig, um þessi áramót en það er framlengt til ársins 2023. Ég hvet hæstv. ráðherra og sveitarstjórnir, og þá sveitarstjórnarráðherra, til að stíga ákveðin skref til að minnka óvissu þegar kemur að fjármálum sveitarfélaga og hvernig við ætlum að haga gistináttagjaldinu. En ég tel rétt að framlengja það og styð það um leið og ég hvet þessa aðila til að taka málið lengra og sýna aðeins á spilin. Ég vona að hv. fjárlaganefnd fái tækifæri til þess að sjá hvað menn eru að hugsa í þessum málum.

Þegar kemur að rekstri Framkvæmdasjóðs aldraðra — þetta eru ekki óeðlilegar breytingar hér. En ég vil undirstrika þá skoðun mína, sem er greinilega skoðun margra, að það er brýnt að við förum að reyna að breyta þessu fyrirkomulagi, þessari undanþágu sem veitir heimildir, að beita framkvæmdasjóðnum að hluta til í reksturinn. Ég hefði miklu frekar viljað sjá meiri snerpu í því að nýta fjármagnið betur til fjárfestinga og fjölgunar hjúkrunarrýma. Ég hef margítrekað sagt að mér finnst það til vansa að við höfum ekki náð að byggja fleiri hjúkrunarrými, létta álaginu á Landspítalanum og auka þjónustu um allt land hvað það varðar. Ég hvet ráðherra til að reyna að nota framkvæmdasjóðinn og breyta því fyrirkomulagi sem þar er, að auka fjárfestingar hvað þetta varðar.

Síðan kemur að grænu sköttunum, kolefnisgjaldinu. Það hækkar um 2,5%. Það er hægt að réttlæta það með verðlagsbreytingum. Við í Viðreisn höfum ítrekað, gerðum það ekki bara fyrir kosningar, að við teljum mjög mikilvægt að beita grænum hvötum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dregur fram, um leið og hann hvetur okkur áfram til að vanda undirbúning, að við erum enn langt undir viðmiðum þeirra þegar kemur að umhverfisgjöldum sem eru til þess fallin að breyta hegðun. Ég vil líka vara við því að þetta verði einhver fjallabaksleið fyrir ríkissjóð til að ná sér í tekjur. Við verðum að nota skattkerfið, breyta því þannig að ekki verði, þegar upp er staðið, um viðbótarálögur á heimilin og fyrirtækin í landinu að ræða. Mér finnst það skipta mjög miklu máli.

Samhliða þessu vil ég einnig segja að ég hefði viljað fá að ræða þetta, við tökum þá umræðu kannski við 2. umr., við loftslags- og umhverfisráðherra. Ég vil ekki endilega sjá hækkun á kolefnisgjaldi ef ég sé það ekki fara þangað sem það á að fara, í loftslagsmál, í umhverfismál. Þetta verður að fara þangað. Auðvitað hef ég ákveðnar spurningar. Við sjáum að losun Íslendinga er 18 millj. tonn og með því að fara í endurheimt votlendis og raskaðra vistkerfa myndum við minnka losun um 9 millj. tonn. Stöðvun gróðureyðingar yrði 4 millj. tonn. Hvernig beitum við kolefnisgjöldunum? Hvernig beitum við grænum sköttum sem verið er að taka? Það held ég að verði eitt af verkefnunum sem nýr loftslags-, umhverfis- og orkumálaráðherra verður að fara í og svara okkur hér í þinginu, hvernig raunverulega er verið að beita grænum sköttum til að breyta hegðun en líka til að vinna á þeim gríðarlega loftslagsvanda sem við og öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir.

Að síðustu langar mig að tala um það sem sumir kalla aukamál, sem það er að vissu leyti, en það eru áfengisgjöldin. Alltaf þegar við þingmenn leyfum okkur að tala um áfengismál þá megum við aldrei tala um þau. Engu að síður er þetta eitt af verkefnum okkar þingmanna. Áfengisgjaldið er hækkað sem nemur þeim verðlagshækkunum sem flestallar gjaldahækkanirnar miða við. Ég vil taka undir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrir kosningar, og ég hefði vonað að hann hefði kjark til að halda þeirri skoðun fram yfir kosningar, að álögur á áfengi eru komnar að ystu mörkum. Það er ljóst að fenginni reynslu að okkur hefur vegnað gríðarlega vel þegar kemur að forvörnum í áfengis- og vímuefnamálum. Við erum með mælanlegan árangur, t.d. í grunnskóla, á það hvernig við höfum frá 1991 náð neyslu ungmenna á Íslandi niður en hún var með því hæsta sem gerðist innan OECD. Nú erum við með einna minnstu neysluna á síðasta skólastigi í grunnskóla. Það gerðist út af markvissum forvörnum og verkefnum þeim tengdum. Ég hefði því gjarnan vilja sjá að menn hefðu aðeins haldið að sér höndum, ekki bara vegna þess að gjaldið er komið að ystu mörkum heldur ekki síður vegna þess að á þessum tímapunkti horfum við upp á þann hluta atvinnulífsins sem snertir veitingahúsageirann, skemmtistaðina og þann þátt sem tengist m.a. ferðaþjónustunni, fara illa út úr faraldrinum. Þar eru allar svona álögur, hvort sem það er áfengisgjaldið eða ýmsar fleiri álögur sem snerta atvinnulífið, rekstraraðilum til trafala. Þetta eru hlutfallslega mjög þungar álögur á þessi litlu fyrirtæki en oft er um að ræða eins til tveggja og upp í tíu manna fyrirtæki, oftast eru það kringum átta til 15 manns. Þó að vel hafi verið gert í tryggingagjaldinu, sem hefur lækkað tímabundið, þá skiptir allt máli þegar kemur að rekstri lítilla fyrirtækja á erfiðum tímum.

Í heildina er margt áhugavert í frumvörpunum og það eru ýmis teikn á lofti sem eru góð en önnur sem mér finnst að við þurfum að ræða. Ég hvet hv. fjárlaganefnd til að fara vel yfir þetta mál.