152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[18:53]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar og ég fagna því að skuldastigið verði mögulega tekið til umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvað er eðlilegt skuldastig vegna þess að ýmsar forsendur hafa breyst í heiminum. Ég held að mjög mikilvægt sé að það verði rætt á komandi árum hvernig við komum út úr þessu ástandi. Mig langaði til þess að fylgja þessu eftir og beina til hæstv. ráðherra, í samhengi við getu hagkerfisins til að bregðast við, spurningu um mikilvægi þess að við séum búin að búa í haginn, hvort hann sjái ekki forsendur fyrir því eða geti séð hina hliðina á málinu, þ.e. að hægt sé að búa í haginn með ýmsum öðrum hætti en að borga niður skuldir. Það er t.d. hægt að gera með því að styrkja aðra atvinnuvegi, koma í veg fyrir að við séum með jafn einsleitt hagkerfi og við erum með í dag og höfum verið með sem þýðir, eins og með ferðaþjónustuna núna, eins og með bankakerfið á sínum tíma, eins og með sjávarútveginn fyrir nokkrum áratugum, að við fáum þessa stóru og miklu áföll. Það gæti verið mikilvægt á komandi kjörtímabili að við myndum ræða aðeins um skuldir út frá breiðara sjónarmiði, þ.e. að fjárfesta í innviðum og nýjum atvinnugreinum þannig að við séum ekki bara að taka allan hagvöxtinn sem kemur næstu fjögur til fimm árin og skófla því í fjárhagslegar skuldir heldur líka í uppbyggingu á fjölbreyttara hagkerfi.