Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að segja eins og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir, ég fagna því mjög að við séum að ræða þetta hér í dag. Ég hef reyndar ávallt fagnað því þegar við ræðum um alþjóðamál og finnst í rauninni allt of lítið gert af því hér í þingsal. Mig langar því bara að óska flutningsmönnum til hamingju með þessa þingsályktunartillögu og ég held að það sé mjög gott að hún komi fram strax í upphafi þings. Á síðasta kjörtímabili lagði einmitt flokkur Viðreisnar upp með þetta, annars vegar að taka upp evruna og hins vegar að ganga í Evrópusambandið, en nýttu ekki tækifærið fyrr en á síðasta ári þess kjörtímabils að koma fram með eitthvert mál þar að lútandi og skapaðist um það í rauninni allt of lítil umræða hér í þingsal, áhuginn var ekki meira en svo.

Mig langar að segja í upphafi, af því að við erum mikið að ræða hérna að vera á móti ESB, vera Evrópusinni, ESB-sinni, að ég er Evrópusinni. Ég hef ekkert á móti Evrópusambandinu, finnst það bara fínn klúbbur. Ég hef aftur á móti í minni pólitík og mínu hagsmunamati lagt það mat á stöðuna að hagsmunum Íslands og Íslendinga sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. En á sama tíma held ég að það sé mjög mikilvægt að við eigum í góðu sambandi bæði við vini okkar Evrópusambandsþjóðirnar, en ekki síður stofnunina ESB. Ég get líka sagt að árið 2009, þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, var að smala köttum og koma fram með tillögu um að ganga í Evrópusambandið, þá gat ég skilið rökin fyrir því að fólk vildi skoða þann möguleika. Ég viðurkenni það alveg að á þeim tímapunkti í þeim aðstæðum sem við vorum þá fannst mér umræðan um að Ísland ætti mögulega að ganga í Evrópusambandið hafa einhvern grunn. Ég skildi af hverju fólk var að tala fyrir þessari leið. Ég er ekki endilega viss um að ég hefði verið sammála henni en ég var alveg til í að taka samtalið og skoða rökin með og á móti þá. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, það voru náttúrlega gríðarleg pólitísk mistök að fara í þessa vegferð án þess að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það hljóti allir að sjá það núna. Á þessum tíma höfðum við farið í gegnum hrun. Við vorum með íslensku krónuna og rökin út frá bankahruninu, út frá skýrslum og það var alveg skiljanlegt að fólk horfði svolítið til Evrópusambandsins og segði: Af hverju kemur þetta fyrir okkur hér? Við erum lítið hagkerfi. Erum við betur komin undir einhvers konar verndarvæng Evrópusambandsins? Ef við hefðum verið þar inni, hefði Icesave ekki átt sér stað? En við fórum ekki í Evrópusambandið og Ísland náði gríðarlegum viðsnúningi á ofboðslega skömmum tíma, einmitt utan Evrópusambandsins. Það var horft til okkar og það var eitt af því sem þingmenn og ráðamenn íslensku þjóðarinnar voru spurðir um á erlendum vettvangi: Hvernig fóruð þið að þessu? Ég vil meina að það sé því að þakka að við vorum ekki innan Evrópusambandsins að þessi viðsnúningur tókst eins og hann tókst, bæði með löggjöfinni en ekki síður að við erum sveigjanlegri og þessi litli gjaldmiðill okkar, sem stundum getur verið okkur þungur, getur líka verið mikill kostur í aðstæðum sem þessum.

Það hefur oft verið notað sem rök fyrir inngöngu í Evrópusambandinu, annars vegar frá nýsköpunarfyrirtækjum og svo heyrði ég líka hér áðan að lítil og meðalstór fyrirtæki kölluðu eftir því og það var einmitt líka það sem heyrðist á þeim tíma sem þessi umræða var hvað háværust í kringum hrunið, að atvinnulífið hreinlega kallaði eftir því að hafa stöðugri gjaldmiðil. En þá er nú ágætt að horfa til þess hvað er að gerast í Evrópu núna. Fréttir frá Þýskalandi eru t.d. með þeim hætti að lítil og meðalstór fyrirtæki þar öskra hástöfum á stjórnvöld og segja: Þið verðið að gera eitthvað. Það að reka lítið eða meðalstórt fyrirtæki innan Evrópusambandsins er enginn dans á rósum, langt í frá. Þá hafa þau rök verið nefnd að við þurfum aðkomu að Brussel-bákninu fyrr í ferlinu. Við vitum það öll sem störfum í stjórnmálum og höfum haft tækifæri til að koma til Brussel og heimsækja Evrópuþingið eða Evrópuráðið og áttum okkur á þessum lagaramma að þetta er ofboðslega stórt og flókið og mikið. Þá er spurningin: Er þá betra að vera hluti af sambandinu, er það einfaldara og myndi rödd okkar heyrast hærra? Jú, við myndum hafa einhverja þingmenn á þinginu og í ráðherraráðinu. En varðandi það að koma fyrr að ferlinu, og það er nú kannski fegurðin við Evrópusambandið og lýðræðið þar, þá eru þau mjög opin fyrir því. Þegar Evrópusambandið ætlar að fara að hreyfa sig í einhverja átt þá eru þau mjög dugleg að birta sínar áætlanir, það eru faghópar úti um allt og við sem Íslendingar og aðilar að EES höfum fullan aðgang að slíkum hópum og erum með sérfræðinga á okkar snærum sem fara oft í vinnuhópa ef við teljum hagsmunum okkar betur borgið með því og við höfum þekkingu á viðkomandi málefnasviði. Það að vera innan Evrópusambandsins er ekkert skilyrði til að taka þátt í þeirri vinnu.

Virðulegur forseti. Ég er svona aðeins að reyna að fara í gegnum rökin sem ég hef heyrt og færa rök fyrir því að ég lít ekki á þau sem raunveruleg rök eða mér finnst þau ekki standast. Eitt af því sem oft hefur verið rætt varðandi Evrópusambandið er að í mörgum löndum þess hefur atvinnuleysi verið mun hærra en við höfum upplifað hér í gegnum tíðina. Ég minnist þess að Evrópusambandssinnar hér í þessum sal notuðu það einmitt sem rök hérna í Covid þegar atvinnuleysið var að fara upp á Íslandi, að nú hlytu rök okkar að vera farin út um gluggann, okkar sem ekki höfum viljað ganga í Evrópusambandið og sagt að atvinnustigið skipti íslenska þjóð mjög miklu máli. En Covid er búið, atvinnuleysið hefur snúist við á ótrúlegum hraða hér á Íslandi og núna er mikill skortur á vinnuafli. Eins og ég kom inn á í ræðu minni í gær þá held ég að núna snúi þetta miklu frekar að því að við eigum að opna okkar svæði út fyrir EES. Við þurfum að taka á móti fólki sem býr utan EES og hleypa því hingað inn með auðveldari hætti til að taka þátt á atvinnumarkaðnum og í samfélaginu okkar.

Svo er það auðvitað sífellda mantran um að vextir séu lægri, verðbólga hafi verið lítil sem engin — hún er nú hærri í dag í mörgum löndum Evrópusambandsins en á Íslandi — og bara að fólk hafi það betra. Hver kannast ekki við auglýsingarnar fyrir kosningar í gegnum tíðina, hvort sem það er hjá Samfylkingunni eða Viðreisn, um að það hljóti allt að vera betra í Evrópusambandinu, kjúklingabringur hljóti að vera miklu ódýrari, afborganir af lánum séu miklu betri og ég veit ekki hvað og hvað? Þá er líka ágætt að spyrja: Hver eru lífsgæði almennings og hvar eru þau best? Því miður er það svoleiðis, samkvæmt frétt sem ég rakst á hjá RÚV hérna um daginn, að lífsgæðum á heimsvísu hefur hrakað. Það er í fyrsta sinn í rúma þrjá áratugi sem lífsgæðum hrakar milli ára. Þá er ágætt að velta því fyrir sér hvernig þessari lífsgæðavísitölu er háttað. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna er Sviss á toppnum, númer eitt í lífsgæðavísitölu. Í öðru sæti Noregur, í þriðja sæti Ísland. Hvað eiga þessi lönd öll sameiginlegt? Ja, alla vega það að standa utan Evrópusambandsins.

Að þessu sögðu og örugglega ýmsu fleiru sem hægt væri að tína til þá lít ég hreinlega þannig á að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. En ég tek undir það sem komið hefur fram í umræðunni áðan að EES-samningurinn er auðvitað ofboðslega mikið lífæð fyrir Ísland og íslenskt atvinnulíf og skiptir okkur ofboðslega miklu máli, alveg ofboðslega miklu, og ég vil standa vörð um hann.

Ég veit að flest þessi rök hafa verið nefnd bæði í dag og áður í umræðunni um Evrópusambandið en í þessari þingsályktunartillögu og eins og komið hefur fram í umræðunni er núna verið að tala um þetta líka út frá varnarhagsmunum vegna stríðs sem geisar í Evrópu. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom hér áðan og sagði: Hættið með þennan hræðsluáróður, ekki ala á óttatilfinningu almennings, að það sé eitthvað hættulegt við að fara inn í Evrópusambandið, það sé einhver hætta í því fólgin, við missum stjórn á auðlindum okkar eða eitthvað slíkt. Ég verð að viðurkenna það að ég tek undir með hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur þegar ég spyr: Eru það rökin núna, af því að núna geisi stríð í Evrópu eigum við að ganga í Evrópusambandið?

Virðulegur forseti. Ég næ engum þræði í þeim rökum. Finnst mér að Evrópuþjóðir eigi að standa saman gagnvart ógnarvaldi Pútínstjórnarinnar? Já, klárlega. En er svo komið að varnarhagsmunum Íslands væri betur borgið innan Evrópusambandsins? Nei. Voru Svíar og Finnar að ganga í Evrópusambandið núna út af varnarhagsmunum? Nei, þeir voru að ganga í NATO, sambandið sem Ísland er stofnaðili að. Varnarhagsmunum Íslands er vel borgið eins og er í dag í NATO og með samningum okkar við Bandaríkin. Evrópusambandið og aðild að því hefur ekkert með varnarhagsmuni Íslands að gera. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að hv. þingmenn telji að við höfum einhverja aðra hagsmuni en það er býsna erfitt að færa rök fyrir því að varnarhagsmunum Íslands væri betur borgið innan Evrópusambandsins.