154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[19:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir ræðuna, víða komið við. Mig langar, í tilefni af því sem nefnt var framarlega í ræðu hv. þingmanns um auðlindirnar, að nefna það að hvað okkur í Viðreisn varðar þá höfum við alltaf litið svo á að Evrópusambandið sé ekki markmið í sjálfu sér. Evrópusambandið er hins vegar leið að markmiði. Evrópusambandið er tæki til að ná fram ákveðnum markmiðum sem ekki hafa náðst hér. Komi það út úr aðildarviðræðum við Evrópusambandið að við Íslendingar missum forræði á okkar helstu auðlindum þá er ég fyrsti maðurinn til að segja nei við slíkum aðildarsamningi. Það eru alveg hreinar línur. Þetta er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið að markmiði. Það að hafa forræði áfram á auðlindum okkar er auðvitað eitthvað sem skiptir miklu máli og verður auðvitað útkljáð í viðræðum við Evrópusambandið.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um alls konar gjöld sem koma í gegnum Evrópska efnahagssvæðið og aðild að Evrópusambandinu og ég verð að segja að mér finnst það ekkert endilega þannig að íslenskir stjórnmálamenn hafi alltaf staðið sig sérstaklega vel í hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkisborgara þannig að ég veit ekki endilega hvort evrópskir stjórnmálamenn séu þess vegna eitthvað verri. En vandinn er hins vegar sá að við fáum til okkar mikið af löggjöfinni í gegnum Evrópska efnahagssvæðið án þess að hafa nokkuð um það að segja, en við hefðum þó a.m.k. eitthvað að segja um það ef við sætum þarna við borðið. En af því að þingmaðurinn var að tala um gjöld þá langar mig að benda á að það var alveg forðast í ræðunni að nefna það sem er þó enn verra fyrir íslensk heimili. Það er krónuskatturinn. Það eru vextirnir sem íslenska krónan veldur okkur.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Er hann hlynntur eða samþykkur þeirri tillögu sem liggur hérna fyrir? Hann er ekki hrifinn af því að ganga í Evrópusambandið, en er hann tilbúinn til að leyfa þjóðinni að ákveða hvort við eigum að stíga þetta skref eða ekki?