132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:13]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þetta er ekki skeytasending til Ríkisendurskoðunar en þegar maður les saman greinargerð þeirra og þennan kafla dettur manni eiginlega ekki neitt annað í hug. En ég tek auðvitað orð hæstv. ráðherra trúanleg í því að þarna sé ekki um skeytasendingar að ræða. Ég verð því að reyna að leita frekari skýringa á þessum sérstaka kafla.

Varðandi Háskólann á Akureyri þá tók ég sérstaklega fram að ég væri að velta fyrir mér vinnubrögðum en ekki því hvað þar væri raunverulega verið að gera. Hins vegar er það svo með Háskólann á Akureyri að þetta er uppsafnaður vandi sem að mínu mati hefði átt að vera búið að bæta og miðað við það sem þarna segir er augljóst mál að ekki er verið að ljúka vandanum. Ég er þeirrar skoðunar að það sem tilheyrir árunum fyrir 2005 tel ég vera í samræmi við fjárreiðulögin, það eigi að vera í fjárlögum ársins 2006. Hins vegar á árið 2005 að vera í þessu frumvarpi. Ég get því miður ekki svarað hæstv. ráðherra hvort þessi tala er nægjanleg til að rétta við árið 2005 eða ekki, ég hef ekki gögn um það, en ég tel að í þessu frumvarpi eigi auðvitað að mæta þeim vanda sem snýr að þessu ári. Háskólinn á Akureyri er mjög mikilvæg stofnun sem hefur vaxið afskaplega kröftuglega og menn hafa staðið sig mjög vel þar. Það er full ástæða til að fara yfir það hvernig stofnunin getur staðið sig sem best en ég tel að í þessu frumvarpi og ég segi enn og aftur í samræmi við fjárreiðulögin, á meðan við höfum þau óbreytt, eigi talan sem á við Háskólann á Akureyri að snúa eingöngu að árinu 2005. Ef eitthvað er hins vegar vegna fyrri ára eigi það að vera í fjárlögum 2006 og síðan eigi að leggja grunninn fyrir 2006 út frá því hvaða útkoma er á árinu 2005 og hvaða áætlanir eru um árið 2006.