134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:14]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrrverandi félagsmálaráðherra góðar óskir í minn garð og vona að við getum átt gott samstarf á þinginu um þau mörgu málefni sem eru í ráðuneyti mínu og hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra þekkir vel.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það skiptir máli að peningar fylgi þessari aðgerðaáætlun og hún verði ekki bara eitt pappírsplagg. Það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar og hún hefur farið yfir þá stöðu að koma þessari aðgerðaáætlun í framkvæmd á kjörtímabilinu. Það liggur ekki fyrir tímasetning á því hvenær það verður gert, það ræðst m.a. af stöðu og framvindu efnahagsmála. Það liggur fyrir að þegar í stað verði farið í að vinna á biðlistunum á Greiningarstöðinni og BUGL og settir í það þeir fjármunir sem til þarf strax til að vinna á þessum listum.

Auðvitað er það ljóst miðað við þá áætlun sem hér liggur fyrir að við erum að tala um verkefni sem skipta einhverjum milljörðum þegar þau verða að fullu komin til framkvæmda. Við höfum aðeins sest yfir það og reynt að skoða hvað það getur orðið en það vantar útfærsluatriði á ýmis atriði sem eru í þessari aðgerðaáætlun eins og með barnabæturnar og fleiri þætti. Það skiptir auðvitað máli hvernig framkvæmdin öll verður og það verður á vettvangi hvers ráðuneytis fyrir sig eftir því sem málinu vindur fram að leggja fram ítarlegt kostnaðarmat með þeim frumvörpum sem fylgja þessari aðgerðaáætlun. Bara fæðingarorlofið út af fyrir sig, sem er náttúrlega langdýrasti liðurinn í þessari aðgerðaáætlun, er örugglega á bilinu 2,5–3 milljarðar þegar það er komið til framkvæmda. En ég get fullvissað hv. þingmann um að það er ásetningur núverandi ríkisstjórnar allrar að forgangsverkefni á sviði velferðarmála (Forseti hringir.) verði málefni barna og málefni lífeyrisþega.