134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:36]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Með framlagningu þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu er svo sannarlega brotið í blað. Við erum að sjá fjögurra ára aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem er mjög í anda þeirrar stefnu Samfylkingarinnar sem var kynnt nú á vordögum undir yfirskriftinni Unga Ísland. Ég vil nota þetta tækifæri hér til að óska nýkjörnum hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með þetta mál og þó svo málið snerti fleiri ráðuneyti þá finnst mér vel við hæfi að nýr hæstv. ráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fylgi málinu úr hlaði, kannski ekki síst vegna þess að þessi sami hæstv. ráðherra er sú kona sem lengst allra hefur gegnt embætti félagsmálaráðherra á Íslandi. Og þessi sami hæstv. ráðherra á einhverja þá frægustu setningu seinni tíma í íslenskri pólitík um að hennar tími muni koma. Og ef marka má þá aðgerðaáætlun sem hér liggur fyrir er ljóst að hennar tími er svo sannarlega kominn.

Eftir aðeins fáeina daga þessarar ríkisstjórnar sjáum við þessa metnaðarfullu tillögu líta dagsins ljós, tillögu sem ég tel reyndar að eigi eftir að rata á spjöld sögunnar. Í fyrsta skipti er lögð fram á hinu háa Alþingi pólitísk stefnumótun og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um barnapólitík.

Víða á Norðurlöndunum þar sem jafnaðarmannaflokkar hafa verið í ríkisstjórnum hefur verið praktíseruð viss barnapólitík og það erum við að sjá gerast á Íslandi núna. Ég fagna því sérstaklega að á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafi tekist sögulegt samkomulag með myndun þessarar ríkisstjórnar um frjálslynda umbótastjórn og sú stjórn mun leggja áherslu á öfluga velferðarþjónustu því að hún er auðvitað hornsteinn þess að allir séu með og enginn sé skilinn útundan og þannig verði lögð áhersla á að auka jöfnuð í samfélaginu á þessu kjörtímabili. Ég er stolt af þessari tillögu og ég er stolt af þessari ríkisstjórn sem hefur þann kjark sem þarf til að leggja slíkt mál fram.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur í umræðum gert góða grein fyrir málinu en efnislega vil ég þó nefna örfá atriði. Fyrst er það fæðingarorlofið. Ég hygg að það sé þverpólitísk samstaða um lengingu fæðingarorlofs og hér er það kynnt að á kjörtímabilinu verði það 12 mánuðir þegar það er að fullu komið til framkvæmda.

Ég ætla líka að leyfa mér að nota þetta tækifæri til að hrósa fyrri ríkisstjórn fyrir það skref sem var tekið varðandi lengingu fæðingarorlofsins og ekki síður það skref sem var tekið til að tryggja rétt feðra til töku fæðingarorlofs vegna þess að það skiptir mjög miklu máli varðandi jafnréttismálin. Nú ætla ég ekki að fara í útfærslu hér og nú á því hvernig komandi frumvarp mun líta út en ég tek undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í ræðustól áðan, það þarf að skoða málið vel, ekki bara út frá réttindum barna heldur ekki síður út frá kynjajafnrétti, út frá því að feðrum sé tryggður jafn réttur til töku fæðingarorlofs. Það má kannski orða það þannig að feður verði jafnáhættusamir á vinnumarkaði og mæður. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að fagna yfirlýsingum hæstv. félagsmálaráðherra í umræðum áðan um skoðun á réttindum einstæðra foreldra.

Ég vil líka nefna það atriði í þessari þingsályktunartillögu sem snýr að aðgerðum til að vernda börn og unglinga gegn kynferðisbrotum. Af því að í umræðunni í gær var sérstaklega rætt um kynbundið ofbeldi þá vil ég benda hv. þingmönnum á aðgerðakafla í þingsályktunartillögunni er tekur á aðgerðum er á að vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum og barnaklámi og hvernig hægt verði að skapa lögreglu skilyrði og starfsaðstæður til aðgerða gegn þeim sem nota netið til að nálgast börn í annarlegum tilgangi. Ég hygg að umræðan í samfélaginu, kannski sérstaklega umfjöllun sumra fjölmiðla hafi einmitt vakið marga foreldra til umhugsunar um þessi mál og sett þau í ákveðið samhengi.

Þriðja efnisatriðið sem ég vil nefna snýr að innflytjendamálum og aðgerðum í þágu barna innflytjenda. Innflytjendamálin eru stór málaflokkur sem krefst æ meiri athygli og markvissra aðgerða sérstaklega varðandi móttöku barnanna. Það þarf auðvitað að tryggja öllum þeim sem hingað kjósa að flytjast og setjast að tækifæri til að gerast fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Þarna kemur inn þáttur sveitarfélaga því leikskólar og grunnskólar eru á forræði sveitarfélaganna og í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir sérstöku samráði við Samband ísl. sveitarfélaga um útfærslu þessara mála og ég legg mikla áherslu á að til þeirrar vinnu verði vandað.

Í þessari stuttu ræðu hef ég aðeins getað nefnt þrjú atriði en það eru auðvitað ótal önnur sem marka spor í dag og ótal önnur atriði sem ég er viss um að fleiri eiga eftir að gera að umtalsefni í umræðunni á eftir.

Frú forseti. Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með þá metnaðarfullu þingsályktunartillögu sem endurspeglar þá velferðarpólitík sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks setur í öndvegi á þessu kjörtímabili.