137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk ekki svar við spurningu minni um það hvaðan þau 2.500 tonn af þorski koma til viðbótar, sem verið er að setja inn í þessar strandveiðar. Það er það sem ég var að benda á hér áðan. Ég geri mér grein fyrir því að það eru 15% sem mega vera af ufsa miðað við þann afla sem veiddur er þann daginn.

Ef bátur fer út á sjó og fær 200 kíló af þorski má hann að hámarki vera með 30 kíló af ufsa. Það sem ég er að benda hér á og reyna að draga upp er það að ég sé ekki annmarkann á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra taki — og hvaðan þessi 2.500 tonn koma sem hann bætir við inn í strandveiðikerfið — ekki nema hluta af því, eða 1.455 tonn, út úr byggðakvótanum, þ.e. 55% af þorskaflanum inni í byggðakvótanum. Hann tekur þessi 2.500 tonn ekki upp úr skúffu í ráðuneytinu. Hann tekur þetta væntanlega sem aukaúthlutun. Það hlýtur að vera þannig. Öðruvísi gerist þetta ekki.

Af hverju getur ráðuneytið ekki tekið ákvörðun um að setja þá 1.000 tonn af ufsa, eða þann ufsa sem þarf að setja á móti, til þess að menn geti þá farið og veitt þá með þetta hámark yfir daginn. Af því að hæstv. sjávarútvegsráðherra er sammála mér um það og deilir með mér áhyggjum af því tel ég það mjög skynsamlega ráðstöfun. Ég hvet hann til þess að skoða þetta mál betur. Ég tel mjög skynsamlegt að hafa þetta ekki með þeim hætti að menn megi bara veiða 15% af ufsa yfir daginn. Það þarf kannski líka að útfæra það nánar hvernig menn sjá fyrir sér ef menn væru að veiða rúmlega aflann einhvern annan daginn — gefa út hvaða svigrúm menn ættu að hafa í því.