137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lagði nokkrar spurningar fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hann hefur einhverra hluta vegna ekki kosið að svara. Ég ætla í sjálfu sér ekki að ítreka þær spurningar. Hæstv. ráðherra hefur fundið upp nýmæli sem er það að spurningarnar svari sér sjálfar. Það er út af fyrir sig ágætisaðferð hjá ráðherrum sem vilja koma sér undan því að svara spurningum að segja að spurningarnar svari sér þá sjálfar. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir, sem er nýr ráðherra, getur tilteinkað sér þessa nýbreytni sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur innleitt í þingstörfin.

Það er eitt sem hæstv. ráðherra hefur þó upplýst og það er að hann hyggst ekki úthluta neinum byggðakvóta fyrr en eftir að þetta frumvarp hefur verið samþykkt. Það þýðir þá á mæltu máli að byggðakvótinn mun á yfirstandandi fiskveiðiári nýtast að mjög litlu leyti. Það var verið að gera miklar breytingar á byggðakvótafyrirkomulaginu sem ég nefndi áðan sem leiddi til þess að tafir voru á úthlutuninni. Þær breytingar voru komnar í gegn þannig að í sjálfu sér var ekkert því til fyrirstöðu að úthluta byggðakvóta í upphafi ársins eða í febrúarmánuði. En það var út af fyrir sig pólitísk niðurstaða að gera það ekki og ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um það.

En af því að hæstv. ráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann ætla ég að gera tilraun til að spyrja hann einnar spurningar í viðbót — ég hygg að hún hafi ekki svarað sér sjálf. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi hugleitt það að þetta strandveiðifyrirkomulag yrði með einhverjum hætti meira bundið við byggðirnar. Að sett yrðu einhver skilyrði um löndun, skilyrði sem leiddu til þess að aukin fiskvinnsla yrði á stöðunum o.s.frv. eins og hefur verið yfirlýst markmið. Ég vek athygli á því að í athugasemdum við frumvarpið er talað um að þessi stefna eigi að verða til þess að styrkja og örva atvinnustarfsemi í sjávarbyggðunum. Ég spyr því: Kom til greina að binda þetta með einhverjum hætti við sjávarbyggðirnar, við vinnslu, við löndunarskyldu eða eitthvað í þeim dúr?