138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

staða sparisjóðanna.

[14:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Á sumarþingi lagði hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra Gylfi Magnússon fram frumvarp um sparisjóði og var það samþykkt með minni háttar breytingum frá stjórnarflokkunum. Helsta breytingin í því frumvarpi að lögum um fjármálafyrirtæki var að leyfa niðurfærslur á stofnfé stofnfjáreigenda. Það urðu heilmikil átök um þetta í þinginu þar sem færð voru fram mjög góð rök að mínu mati fyrir því að það væri grundvallarmunur á því hvað er stofnfé og hvað er hlutafé. Það endurspeglaðist m.a. í því að í þágildandi lögum var ekki leyfilegt að færa niður stofnfé. Ég lýsti þá yfir áhyggjum mínum, að þetta gæti í einhverjum tilvikum neytt sparisjóði til að leita allra annarra leiða til að fjármagna sig og þar með hafna framlaginu frá ríkinu og gera hið nýja og endurreista sparisjóðakerfi þar með mun veikara. Það lá mjög mikið á því að afgreiða þetta mál og töldu menn að þetta væri mjög brýnt til að hægt væri að veita þetta stofnfjárframlag til sparisjóðanna.

Það hefur hins vegar því miður heyrst mjög lítið af afgreiðslu þessa áðurnefnda stofnfjárframlags. En ég rak augun í frétt um lokauppgjör á Landsbankanum núna í morgun þar sem einmitt var haft eftir hæstv. ráðherra að ríkið þurfi væntanlega ekki bara að leggja fram minna fjármagn til að endurreisa bankana þrjá heldur einnig sparisjóðina, eða eins og segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Það stefnir allt í það að fjárbinding ríkisins vegna endurreisnar bankanna verði mun minna en ráð var fyrir gert og á það reyndar líka við um sparisjóðina.“

Ég spyr því: Hvað á ráðherrann hér við? Er staða sparisjóðanna miklu betri en áður hafði verið lýst? Ætla kröfuhafar að koma með meira fjárframlag eða er það að rætast sem ég spáði að menn eru á harðahlaupum við að losna við að taka ríkið inn í sparisjóðina og við verðum þar af leiðandi með illa fjármagnað og vanmáttugt sparisjóðakerfi sem er kannski bara orðið hlaðborð fyrir bankann til að taka yfir?