139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mikil reiði í þjóðfélaginu og það er mikil reiði á Alþingi sem við þurfum endilega að sefa. Þessi reiði í þjóðfélaginu byggist á ótta. Fólk óttast að missa vinnuna eða þekkir einhvern sem hefur misst vinnuna og alveg sérstaklega óttast menn að missa heimili sín.

24. júní sl. voru samþykkt nokkur frumvörp sem urðu að lögum sem tengjast umboðsmanni skuldara. Þarna vann stjórn og stjórnarandstaða mjög náið saman í því að finna lausnir. Ég taldi að eftir að þessi lög hefðu komið fram yrði ekki um það að ræða að heimili einstaklinga yrðu boðin upp, ég taldi það. Þess vegna varð ég mjög hissa þegar ég sá í blöðum að það ætti að fara að bjóða upp ekki hundruð heldur þúsundir heimila. Ég vil því spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem er formaður félags- og tryggingamálanefndar, að því hvort breyta þurfi lögum enn frekar til að koma í veg fyrir þessi uppboð því að það átti að koma í veg fyrir þau, eða hvort við þurfum að skerpa á framkvæmdinni, hvort eitthvað sé að framkvæmdinni, hvort framkvæmdarvaldið, þ.e. ráðuneytin eða undirstofnanir þeirra vinni ekki eins og til var ætlast.

Það var meiningin með þessu að þarna yrði fundin lausn á þeim vanda sem heimilin standa frammi fyrir, lausn á þeim ótta sem fólk býr við, fólk sem þekkir einhvern sem er að missa íbúðina sína eða er sjálft í þeirri stöðu að vera að missa íbúðina sína. Það er óþolandi ástand, frú forseti, sem ég taldi að við værum búin að koma í veg fyrir með þessari lagasetningu.