140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fjárframlög utan fjárlagafrumvarpsins.

[13:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fara að efna til einhverra illinda við hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði einfaldlega hvort það væru fleiri svona atriði sem væru ekki í fjárlagafrumvarpinu.

Það er allt rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um tildrög þessa máls að því er ég best veit. Hins vegar geri ég athugasemd við að ekki hafi verið gert ráð fyrir tölu í fjárlögunum ef það var orðið samkomulag um að þessir hlutir næðu fram að ganga. Það kann að vera að útfærsluna hafi vantað og þess vegna hafi þetta ekki komið þar fram, en ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa til framtíðar með mér í því að koma í veg fyrir að hlutirnir séu settir fram með þessum hætti ef það á að skapa einhvers konar trúverðugleika gagnvart fjárlagavinnunni og fjárlagafrumvarpinu.

Ég tek það þá þannig, frú forseti, að það komi ekki í ljós fleiri (Forseti hringir.) liðir.