141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist yfir orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur þegar hún sagði að sumir í samfélaginu þyldu ekki að tapa og breyttu reglum sér í hag. Skemmst er að minnast hæstv. forsætisráðherra sem tók ekki gildan úrskurð Hæstaréttar um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings á sínum tíma og lét í staðinn Alþingi kjósa hið svokallaða stjórnlagaráð, talandi um hefnigirni. En ég ætlaði ekki að tala um það hér.

Ég ætla líka að bregðast við því að nú upplýsist fyrir þingheimi að hv. þm. Mörður Árnason er orðinn sérlegur talsmaður Seðlabankans á þingi. Hann ber jafnvel líka upp kröfu seðlabankastjóra, sem við vitum að rekur mál fyrir dómstólum, og fer kannski að tala fyrir launahækkunum þess sama aðila þar sem fjárveitingavaldið er hér. Það er nú svo einkennilegt.

Ég ætla að benda á að hin svokallaða snjóhengja er um 800 milljarðar. Fjölmiðill í landinu hefur gengið eftir því við Seðlabankann í dag og í gær að upplýsa um þær verklagsreglur sem bankinn hefur til að greiða út undanþágur og flytja gjaldeyri úr landi. Það er ekki fyrr en síðdegis að það upplýsist hér að talsmaður bankans, hv. þm. Mörður Árnason, kemur fram og vísar í heimasíðu Seðlabankans og segir að þetta sé allt saman tómur misskilningur.

Virðulegi forseti. Við störfum á Alþingi Íslendinga. Það er ekki boðlegur málflutningur að hér sé einhver aðili í hlutverki hlaupatíkur fyrir Seðlabankann að bera okkur þessar fréttir. Seðlabankinn hefur ekki sýnt fram á það með afgerandi eða sannfærandi hætti hvað er um að vera. Svo er sagt að þetta hafi ekki verið tekið af gjaldeyrisvaraforðanum sem sýnir að Seðlabankinn greiddi þetta víst út. Það vantar upplýsingar um þetta. Hér er annars vegar (Forseti hringir.) um að ræða Deutsche Bank og hins vegar erlent fyrirtæki sem á í íslensku fyrirtæki. Ég krefst þess að forsætisnefnd upplýsi þingið nú þegar um það hvaða aðila er um að ræða og hvað er rétt (Forseti hringir.) og rangt í þessu máli.