143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir orð hans sem féllu áðan um Landspítalann. Ég held að sú skoðun sé sammerkt með okkur öllum þingmönnum 63 sem hér sitjum, en betur verður rætt um það á eftir.

Það sem mig langaði að ræða undir liðnum um störf þingsins er hugtakanotkun sem mér finnst vera barn síns tíma en þó viðgangast. Við tölum um öryrkja, þ.e. við einblínum á hvað viðkomandi einstaklingur getur ekki í staðinn fyrir að horfa á það sem hann getur. Það er unnið að því innan velferðarráðuneytisins undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals að breyta því.

Við tölum um eldri borgara sem er ágætlega virðulegt heiti, en það er ekki hægt að flokka fólk frá 67 ára aldri og upp úr sem einn hóp frekar en við mundum flokka aðra aldurshópa. Þetta er aldurshópur sem á það eitt sameiginlegt að vera á sama eða svipuðum aldri en samt ekki. Það er svo stórt bil sem er verið að tala um, frá 67 ára og til æviloka og einstaklingarnir eru eins ólíkir og þeir eru margir.

Svo er það eitt atriði að lokum sem mig langaði að breyta en mér finnst alls ekki rétt að kalla peninga sem fólk fær á vistheimilum vasapeninga. Mér finnst það vanvirða. Vasapeningar eru í mínum huga peningar sem börn og unglingar fá frá foreldrum sínum til að eiga fyrir strætó o.s.frv. en ekki réttnefni á þeim peningum sem fólk á vistheimilum fær til ráðstöfunar úr ríkissjóði eftir að hafa skilað sínu ævistarfi og framlagi í sama sjóð. Ég legg til að því verði breytt hið snarasta.