144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir staðfestingu á talnaefninu sem hann rakti hér áðan. Á sambærilegu verðlagi er sem sagt um að ræða 300 millj. kr. aukningu á heildarframlögum til barnabóta samkvæmt því sem fjármálaráðherra segir hér nú.

Það vegur skammt á móti þessari breytingu. Þegar haft er í huga að vaxtabætur sem voru á ýmsum árum síðasta kjörtímabils 17 milljarðar, fóru upp í 22 milljarða þegar mest var, voru gjarnan 14–16 milljarðar, eiga nú á næsta ári að standa í 7,7, er það ekki fyrst og fremst vegna lækkandi skulda heldur vegna nýrra skerðinga í vaxtabótakerfinu sem hafa verið settar inn af núverandi ríkisstjórn.

Auðvitað er þarna verið að skerða framlög til heimila sem ekki hafa mikið milli handanna vegna þess að vaxtabætur eru tekjutengdar.

Hæstv. ráðherra neitar að horfast í augu við þann veikleika sem er í forsendunum, þ.e. alltaf er talað um að ætíð sé gengið út frá því að lækkanir skili sér. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að lágtekjufólk geti haft hag af málinu en alltaf gefa menn sér það sama, þ.e. að lækkunin skili sér.

Virðulegi forseti. Við höfum empíríska rannsókn á því. Við þurfum ekkert að lesa einhverjar greinar fræðimanna um það. Þetta var prófað hér á fyrri hluta árs 2007. Sú ákvörðun að lækka virðisaukaskattinn úr 14% í 7% og telja að það skili sér til almennings í landinu var bara sigur draumsýnarinnar yfir raunveruleikanum. Það reyndist vera þannig. Það gerðist nákvæmlega ekki og þetta er auðvitað staðreynd sem ráðherrann verður að horfast í augu við. Hækkanirnar munu koma, lækkanirnar eru fugl í skógi.