144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er þá skýrt að hv. þingmaður hefur meðtekið það að hjón með tvö börn, annað undir sjö ára, fá til sín barnabætur vegna breytinganna sem vaxa um 60 þús. kr. á ári. Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar mun matarkostnaður þeirra sem eru í lægsta fjórðungi tekjuhópanna, samkvæmt þeirra úttekt, vaxa um 17 þús. kr. Það er þá unnið upp á innan við fjórum mánuðum með hækkun barnabótanna og vel rúmlega það út árið, 60 þús. í viðbótarbarnabætur til allra þeirra hjóna með tvö börn, annað undir sjö ára, sem eru með 400 þús. kr. í tekjur. Þetta eru mótvægisaðgerðir sem ekki bara vega upp þá hækkun sem menn hafa gert hér að sérstöku umtalsefni og snýr að matvælaverði í landinu heldur ganga miklu lengra en það.

Svo getum við rætt um aðra hópa. Hv. þingmaður fjallar hér um það hvernig vörur skiptast á milli virðisaukaskattsþrepa. Ef við skoðum samsetningu vísitölu neysluverðs er það sem er í vísitölunni og er undanþegið um það bil 35%. Það sem lendir í neðra þrepinu er um það bil 23% af því sem er í vísitölu neysluverðs. 42% af neysluverðsvísitölunni er í efra þrepinu, þannig að þegar við lækkum efra þrepið höfum við veruleg áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs og kaupmætti heimilanna.